154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

467. mál
[14:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það segir í 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta: „Ráðherra getur, að fenginni umsókn þar um, veitt skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði skipa …“

Ég ætla rétt að vona að skilyrðið verði að prófað verði hversu umhverfisvæn nýju veiðarfærin eru og áliti skilað til ráðuneytisins um það á hverjum tíma, og líka að nýju veiðarfærin og vinnsluaðferðirnar sem verið er að prófa skili framleiðni. Aukin framleiðni er grundvöllur velmegunar í samfélaginu, þó svo að hún hafi staðið í stað í íslensku samfélagi í hagvextinum. Er þetta ekki ætlað fyrir alla skipaflokka og líka strandveiðarnar, þannig að þær eigi kost á því að prófa ný veiðarfæri og nýjar vinnsluaðferðir í skipum sínum? Eru þá önnur viðmið um það hvað óverulegur afli er? Miðast það við stærð skipsins? Segjum að strandveiðiskip fari að prófa veiðarfærabúnað; er hæstv. ráðherra með einhverja tölu um hvað telst óverulegur afli hjá strandveiðibát annars vegar og stærri skipum hins vegar? Það hlýtur að fara eftir stærðum og ef það sama á yfir alla að ganga þá getur það verið mikill munur.

Ég ítreka að mér finnst þetta mjög sérstakt gjald vegna ólögmæts afla. Ég hefði talið eðlilegt að andvirði aflans myndi renna í sjóð sem ýtti undir frekari rannsóknir á veiðarfærabúnaði og vinnslubúnaði skipa. Það væri þá hægt að sækja um styrk til ráðuneytisins til að stunda frekari rannsóknir, (Forseti hringir.) vegna þess að við þurfum alltaf að vera á fótunum til að stunda rannsóknir á þessu sviði í góðu samstarfi við atvinnugreinina.