138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[14:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvort nokkur áhætta hefði verið tekin í þeim efnum að setja það í vald kjararáðs á næsta ári að fara með framhald þess máls ef samstaða er um það hér á Alþingi að eðlilegt sé að ráðherrar og alþingismenn og aðrir slíkir leggi sitt af mörkum með því að taka á sig þær launalækkanir sem þegar eru orðnar. Ég held að það sé varla verra að taka af vafann, sé það ætlun manna, og þá vísa ég aftur til þess sem ég sagði í framsögu minni um það sem nú þegar liggur fyrir um hina umsömdu þróun á launamarkaði. Það er ekki verra að taka af allan vafa um að þannig skuli það vera. Það er misskilningur að það hafi nokkuð með sjálfstæði kjararáðs og ákvarðanir þess að gera í eðlilegu umhverfi þó að Alþingi, löggjafinn, sem setur lögin hvort sem er, geri það skýrt að það er viljinn héðan að þannig verði þetta. Ég held að kjararáði sé allt eins greiði gerður með því og miklu frekar en að líta á það sem eitthvert vantraust á störf þess þó að frá þessu sé gengið til þess að taka af allan vafa. Ég tel að það sé mun eðlilegra og þægilegra í raun og veru fyrir báða aðila að ganga frá málinu með þessum hætti. Þá er það bara í gadda slegið, eins og hæstv. utanríkisráðherra mundi kannski segja ef hann væri að tala fyrir þessu, og engin óvissa eða vafi uppi um að þessi launalækkun verður áfram við lýði á næsta ári og það bundið af lögum.