138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra sýnt á sér þá hlið sem við þekkjum öll frá því áður en hann varð fjármálaráðherra því að það tókst aðeins að æsa hann upp. En athugasemdir mínar og hv. þm. Eyglóar Harðardóttur snúa ekki að því. Komið hefur fram í máli okkar að þetta frumvarp er lýðskrum og ég vildi óska þess að ríkisstjórnin mundi vinna jafnhratt og vel og jafnlangt fram í tímann eins og þetta frumvarp er unnið. Nú er miður nóvember og hér er komið frumvarp í þingið sem er algjörlega óþarft. Það verður ekki sjáanleg launahækkun á þessum hópi næstu árin því að kjararáð fer fyrst og fremst eftir því hvort hækkun eða lækkun er á almennum vinnumarkaði.

Hæstv. fjármálaráðherra skal líka gera sér grein fyrir því að þar sem verið er að binda þetta í lög til ársloka 2010 gæti ríkissjóður e.t.v. farið aðeins á mis við tekjur því að ef hér verður mikil launalækkun í þessari djúpu kreppu sem við erum að sigla inn í, svo ekki sé talað um annað en að Icesave-frumvarpið verði samþykkt, erum við að fara inn í mjög þungan vetur. Hæstv. fjármálaráðherra er hér nánast að hafna tekjum fyrir ríkissjóð með því að binda þetta til ársloka 2010, (Gripið fram í.) því að kjararáð er óbundið af sínum tillögum og fer fyrst og fremst eftir kjaraþróun á almennum vinnumarkaði og þeim reglum sem kjararáð hefur sett sér. Reglur kjararáðs má finna inni á heimasíðu þess, kjararad.is. Það er mjög skilmerkileg heimasíða og hvet ég hæstv. fjármálaráðherra og alla aðra til þess að lesa það sem þar stendur. Þar eru m.a. úrskurðir kjararáðs. Kjararáð hefur þurft að grípa til þess að úrskurða í málum og varð að úrskurða í því umdeilda máli eftir lagasetninguna síðasta vetur hvort því væri heimilt að lækka laun dómara, því að 2., 59., 61. og 70. gr. stjórnarskrárinnar byggjast á því að dómarar skuli vera sjálfstæðir í störfum sínum.

Hér les ég upp úr héraðsdómi, E-1939/2006:

„Grunnreglur stjórnarskrárinnar um sjálfstæði dómsvaldsins hafa á undanförnum tveimur áratugum fengið aukinn styrk í íslenskum rétti samfara áhrifum mannréttindasáttmála Evrópu á íslenskan rétt, …“

Eins og við vitum er sáttmálinn lögfestur hér á landi og þar er alveg skýrt ákvæði í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans að allir hafi rétt til þess að fá leyst úr málum sínum fyrir óháðum dómstólum. Dómstólar geta aldrei orðið óháðir nema þeir séu frjálsir af launaákvörðun, svo eitthvað sé nefnt, fyrir utan skipun og annað.

Þetta er nú allt saman mjög skrýtið. Hér er með öðrum orðum verið að binda hendur kjararáðs sem, eins og ég hef áður sagt, á að vera óháð stjórnsýslunefnd, en þessi ríkisstjórn hefur nú ekki sett svoleiðis smáatriði fyrir sig síðan hún tók við völdum. Það er vaðið yfir allt á skítugum skónum og rofinn sá samfélagssáttmáli sem hér er og hæstv. fjármálaráðherra leggur það til að kjararáð þurfi ekki að starfa til ársloka 2010. Það er lítið að gera í ráðinu þannig að með þessu frumvarpi er lagt til að því verði óheimilt að endurskoða úrskurði til ársloka 2010. Það þarf að hlíta þessum lagabreytingum.

Talað er um að hér sé verið að aðlaga launin. Hæstv. fjármálaráðherra veit það vel eins og ég að laun þessara hópa voru lækkuð 1. janúar 2009 þannig að hér er ekki um neinn fyrirsjáanlegan sparnað að ræða, þetta er enginn sparnaður sem kemur inn í fjárlagafrumvarpið á árinu 2010 því að þessi framkvæmd hefur nú þegar tekið gildi. Það er að mínu mati lýðskrum að tala um þetta sem sparnað því að þetta fyrirkomulag hefur verið í gildi í heilt ár. Ég ætla þegar mér gefst kostur á að gá hvort gert sé ráð fyrir því eða þetta sett upp í fjárlagafrumvarpinu eins og um sparnað sé að ræða fyrir árið 2010. Ég veit að þetta hefur þegar komið fram sem sparnaður en nú er þetta komið í venjulegt ferli.

Kjararáð var stofnað upp úr kjaranefnd og Kjaradómi. Þar voru embættismenn undir og var ákveðið að stofna kjararáð því að það voru svo margir opinberir starfsmenn komnir hver undir sinn hattinn. Markmiðið með kjararáði var því m.a. að fækka þeim aðilum sem undir það mundu falla, en með lögum 87/2009, sem tóku gildi í fyrra, er kveðið á um lækkun launa þeirra aðila sem heyra undir kjararáð. Þeir eru dómarar, ráðherrar, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands, forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir ríkisstarfsmenn. Svo bættist við 2. mgr. 1. gr. þar sem jafnframt var ákveðið að laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga einkaréttarlegs eðlis sem eru í meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins, skuli fara þarna undir líka. Eins og við munum öll kom hæstv. forsætisráðherra fram með þá afar snjöllu tillögu, að hennar mati, að enginn skyldi hafa hærri laun en forsætisráðherra. Mig langar því til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað sé að frétta af því markmiði ríkisstjórnarinnar að enginn skuli hafa hærri laun en hæstv. forsætisráðherra.

Nú hefur það verið viðurkennt með framlagningu þessa frumvarps, sem ég benti á í sumar, að ekki er hægt að lækka laun forseta á kjörtímabili hans, sama hver þar situr, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki hefur sést tangur né tetur af frumvarpinu sem talað var fyrir í sumar þar sem lækka átti laun forsetans því að það var rekið til baka. Það mátti ekki þegar upp var staðið lækka þá aðila á kjörtímabili forseta sem féllu þar undir. Það er nú nokkuð skrýtið hvað mörg óvönduð frumvörp koma fram frá þessari ríkisstjórn en það er nú samt sem áður ágætt að hægt sé að hafa áhrif hér á þingi. Er þetta dæmi um það og er sérstaklega kveðið á um það í þessu frumvarpi að þessi framlenging til ársloka 2010 eigi ekki við um forseta Íslands. Er hann þá áfram hæst launaði embættismaður íslenska ríkisins þrátt fyrir að farið hafi ákvæði þess efnis, að mig minnir, inn í það sem er kallað „samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna“, það hét ekki stjórnarsáttmáli, að hæstu laun íslenska ríkisins ættu að miðast við laun forsætisráðherra.

Ég hef farið yfir það að litið er svo á að kjararáð sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Það er þess vegna mjög einkennilegt að það skuli vera gripið inn í með þessum hætti. Í 4. mgr. 10. gr. laga um kjararáð segir sérstaklega um þá grein að úrskurðum kjararáðs verði ekki skotið til annars stjórnvalds. Er það í samræmi við þá stefnumörkun sem lá að baki frumvarpinu um kjararáð að stjórnskipuleg staða kjararáðs ætti að vera skýr og það ætti að fara með endanlegt úrskurðarvald á stjórnsýslustigi. Það er alveg skýrt hver stjórnskipuleg staða kjararáðs er en löggjafinn hefur sem sagt þegar gripið inn í þetta, samanber kjararáð í fyrra. Það voru einu sinni áður lækkuð laun hjá þessum hópum þegar Kjaradómur var og hét en nú er verið að framlengja þetta ákvæði algjörlega að óþörfu. Í kjararáði situr mjög gott fólk og er til þess bært að sitja þar. Hér er því verið að grípa fram fyrir hendurnar á þessu fólki og er alveg hreint með ólíkindum að þetta skuli vera komið hér fram.

Málið fer nú til efnahags- og skattanefndar, að mér skildist á máli hæstv. fjármálaráðherra hér áðan. Þar sem ég á ekki sæti þar sjálf ætla ég að fara fram á það við fulltrúa Framsóknarflokks sem þar situr að hann óski eftir umsögnum kjararáðs um þetta frumvarp svo ráðið geti þó alla vega sagt hvað því finnst um þetta inngrip hér enn á ný. Sérstaklega í ljósi þess að öll efnahagsleg teikn eru á lofti um að allt ætti að vera með kyrrum kjörum í kjararáði á næsta ári nema þá hreinlega ef laun verða lækkuð, en það er þá á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra ef ríkissjóður verður af tekjum. Ég skal ekki núa honum því um nasir en svona lagasetning fram í tímann um hluti sem ekki koma til framkvæmda er ekki sú lagasetning sem Alþingi Íslendinga á að vera að vinna að nú um stundir. Hér eigum við að vera að vinna að því að endurreisa heimilin, koma fjölskyldunum til bjargar í þessu landi, koma málefnum af stað, koma atvinnulífinu á stað, koma einhverju lífi í landann, eins og sagt er. En þá er verið að vinna einhver lýðskrumsfrumvörp í ráðuneytunum sem hafa engan tilgang, frú forseti. Það er hálfsorglegt þegar maður verður vitni að þessum vinnubrögðum. En þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, að því er virðist vera, heimilin og fyrirtækin í landinu skipta þau litlu máli. Það er rúmlega ár frá hruni, ár og einn mánuður, og við stöndum hér enn í sömu sporum. Þróttleysið er algjört.

Við stöndum hér í sömu sporum og í hruninu í fyrra, (Gripið fram í.) lítið hefur verið gert. Það var farið í almennar aðgerðir til bjargar heimilunum. Til þess að geta kallað þetta almennar aðgerðir þurftu þær að ganga yfir alla, yfir fólk sem ekki þurfti á þeim almennu aðgerðum að halda, að búa til nýja gengisvísitölu á lánin hjá öllum, enda hef ég frétt að margir einstaklingar og fjölskyldur hafi afþakkað úrræðið. Það er því ekki hægt að kalla þetta almennar aðgerðir þó að framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnin hafi gjarnan viljað kalla það því nafni. Það var sagt hér á sínum tíma að það væri málið, að bjarga þyrfti heimilunum. Heimilin eru alveg jafnilla stödd og þau voru fyrir hrun — þau eru verr stödd, það eru að koma jól og margar fjölskyldur eru orðnar langeygar eftir einhverjum aðgerðum frá þessari ríkisstjórn. En nei, við skulum ræða hér lög á Alþingi þegar fer að líða að jólum, það er miður nóvember, sem raunverulega eru ekkert annað en lýðskrum.