138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Erindi mitt til að ræða tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun er gamalkunnugt. Ég hef á undanförnum árum þegar þessi mál hefur borið á góma reynt eftir megni að vekja athygli á því sem ég tel vera mjög ábótavant í þessum þingsályktunum um náttúruverndaráætlun sem Alþingi hefur haft til meðhöndlunar ár eftir ár. Hér á ég við það að að mínu mati er það gersamlega ólíðandi að standa þannig að samningu náttúruverndaráætlunar að þar sé ekki gert ráð fyrir hlut náttúrustofanna í landinu í slíkum áætlunum. Það er einfaldlega þannig að saga náttúrustofanna hefur alveg frá stofnun þeirra árið 1992 verið saga um stanslausan barning. Náttúrustofurnar hafa verið raunverulegt olnbogabarn, þær hafa þurft að berjast nánast fyrir lífi sínu og fjárveitingar til þeirra hafa alltaf verið í lausu lofti að langmestu leyti. Þeim hefur verið ætluð lágmarksfjárveiting í fjárlagafrumvörpum hverju sinni og síðan hefur það verið háð dug þeirra þingmanna sem hafa verið áhugasamir um eflingu þessara stofa hvernig gengið hefur að fá viðbótarfjármagn til þeirra. Náttúrustofurnar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt, bæði sem góðar fræðistofnanir og rannsóknarstofnanir og líka sem þáttur í uppbyggingu þekkingar og þess þekkingarsamfélags úti á landsbyggðinni sem menn hafa í orði kveðnu viljað lýsa stuðningi sínum við.

Náttúruverndaráætlunin er auðvitað plagg þess eðlis sem er mjög markandi um það hvernig staðið verður að mjög umtalsverðum verkefnum sem Alþingi er í raun og veru að setja þarna fyrir eða marka einhvern sess. Þess vegna er það ekki líðandi að það skuli gerast æ ofan í æ og m.a. í þessari þingsályktunartillögu að hvergi skuli nefndar á nafn náttúrustofur eða ætlast til að þær hafi nokkurt hlutverk í þeirri náttúruverndaráætlun sem Alþingi samþykkir hverju sinni. Þó blasir auðvitað við þegar náttúruverndaráætlunin er lesin og tillögugreinin sjálf að þar er verið að fjalla um verkefni sem heyra algerlega og rökrétt undir starfsemi náttúrustofanna í landinu. Þetta eru stofur sem eru dreifðar um landið, þetta eru stofur sem eru mannaðar fólki með góða menntun og mikla starfsreynslu og einstaka þekkingu á nærumhverfi sínu og þess vegna er ekkert í vegi þess að náttúrustofunum sé ætlað annað og meira hlutverk en gert er ráð fyrir í þessum náttúruverndaráætlunum og eins og það hefur verið tíðkað ár fyrir ár.

Þegar ég hef vakið athygli á þessu hefur svarið einatt verið á eina og sömu lund sem er það að menn hafa sagt: Jú, náttúrustofurnar hafa auðvitað veigamikið hlutverk. Þær eru umsagnaraðilar eftir því sem við á og er í raun og veru vísað þar með á sams konar bás og frjálsum félagasamtökum í landinu. Ég er ekki að gera lítið úr hlutverki frjálsra félagasamtaka en það er hins vegar ólíku saman að jafna að bera saman frjáls félagasamtök, svo ágæt sem þau oft og tíðum eru, og náttúrustofur sem settar voru á laggirnar með lögum frá Alþingi árið 1992 og Alþingi hefur ákveðið ákveðinn fjárhagslegan ramma og lögin gera bókstaflega ráð fyrir að hlutverk náttúrustofanna séu mjög viðurhlutamikil. Ég gæti í sjálfu sér lesið þannig hluta laganna um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur sem fjalla sérstaklega um náttúrustofurnar. Ég get nefnt í þessu sambandi m.a. að hlutverk náttúrustofanna er að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar, stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar. Þeim er líka ætlað að veita ráðgjöf, þeim er ætlað að sinna rannsóknum, þær eiga að sjá um vöktun o.s.frv. og þær eiga að annast almennt eftirlit með náttúru landsins samanber 7. gr. náttúruverndarlaga. Með öðrum orðum, það er alveg ljóst mál þegar þessi löggjöf er lesin að Alþingi ætlaðist til þess að náttúrustofurnar hefðu viðameira hlutverk en framkvæmdarvaldið hefur síðan ætlað þeim. Að mínu mati er verið að fara á skjön við anda þeirra laga sem samþykkt voru árið 1992. Ég veit að þetta eru stór orð en ég mæli þetta mjög að gefnu tilefni vegna þess að ég hef æ ofan í æ vakið athygli á þessu jafnt þegar í hlut hafa átt ríkisstjórnir sem ég hef stutt og nú þegar ég er stjórnarandstæðingur á þingi. Hér er því ekki um að ræða neitt pólitískt lag af minni hálfu, ég er eingöngu að fylgja eftir því sem er sjónarmið mitt í þessum efnum og ég tel hafa verið sjónarmið Alþingis sem lá til grundvallar þegar náttúrustofunum var komið á legg.

Ég vakti raunar athygli á þessu líka í sumar þegar hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir sams konar tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun. Þá vakti ég athygli á því hversu rýrt í roðinu hlutverk náttúrustofanna væri þegar kæmi að þessari náttúruverndaráætlun. Hæstv. umhverfisráðherra tók þá mjög jákvætt í málaleitan mína og vísaði til umfjöllunar umhverfisnefndar Alþingis. Þegar umhverfisnefnd Alþingis afgreiddi það mál frá sér var eftir því sem ég man best ekkert kveðið á um hlutverk náttúrustofanna og það er heldur ekki gert í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, ekki einu sinni í greinargerðinni er vikið að nokkru leyti að hlut náttúrustofanna. Það er stöðugt vísað í hlut Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar og allt gott um það að segja. Þetta eru góðar og fínar stofnanir að sínu leytinu en það breytir ekki því að náttúrustofurnar eru hornrekur, þær eru olnbogabörn og við eigum að manna okkur upp í það að rétta hlut þeirra. Það verður auðvitað ekki gert nema hlutur þeirra verði sérstaklega réttur í náttúruverndaráætluninni því að þar er ramminn markaður, þar er mönnum skipað til verka í sambandi við þessa hluti sem mjög koma inn á hið lögformlega verksvið náttúrustofanna. Því brýni ég hæstv. ráðherra í því að fylgja nú eftir vilja Alþingis sem kom fram í lögunum frá 1992 þar sem náttúrustofunum er ætlað meira hlutverk en raun hefur orðið á. Við höfum tækifæri til þess núna í meðferð málsins í þinginu og ég mun sem áður hvetja hv. umhverfisnefnd Alþingis til að hyggja alveg sérstaklega að þessum þætti málsins.