138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra góð orð og undirtektir undir það sem ég var að segja en ég vil samt segja að góð orð öngva gerir stoð, svo ég vitni aðeins í mér miklu fremri menn.

Það má kannski segja sem svo að orð séu til alls fyrst og yfirlýsing hæstv. ráðherra um að það væri henni að meinalausu og raunar henni að skapi, að ég tel, að nefna í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd frá Alþingi með skýrari hætti en hér er gert hlutverk náttúrustofanna varðandi náttúruverndaráætlun. Og það er í raun og veru kannski ekki hægt að segja með skýrari hætti því það er einfaldlega þannig að náttúrustofanna er bara í engu getið í þessari þingsályktunartillögu svo furðulegt sem það er í ljósi þess að hér er um að ræða ríkisstofnanir sem hafa starfað í 17 ár og þeim er ætlað lögformlegt hlutverk sem snertir mjög framkvæmd náttúruverndaráætlunarinnar.

Það getur vel verið að staða náttúrustofanna sé með þeim hætti í stjórnkerfinu að það þurfi að fara einhverjar tilteknar leiðir að þessu máli en það breytir ekki því að Alþingi getur kveðið á um það í þingsályktunartillögunni og í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd með hvaða hætti Alþingi ætlast til að náttúrustofurnar komi að sjálfri framkvæmd, úrvinnslu, eftirliti og öllu því sem kemur að náttúruverndaráætluninni. Það er auðvitað þannig að ef náttúrustofurnar hafa ekki hlutverk í náttúruverndaráætlun er verið að fara mjög á svig við vilja Alþingis og það er líka þannig að ef náttúrustofurnar hafa ekki hlutverk í náttúruverndaráætluninni er um leið búið að kippa mjög mikilvægum grundvelli undan starfi þeirra vegna þess að náttúruverndaráætlunin er svo markandi og stefnumarkandi um ýmsa þá hluti sem náttúrustofunum er ætlað að fjalla um.

Að öðru leyti segi ég að ég fagna góðum undirtektum hæstv. ráðherra við málaleitan minni.