138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[20:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég hugsa að margir hefðu getað hugsað sér að vera á þingmáli sem þessu vegna mikilvægis þess fyrir atvinnulíf okkar, uppbyggingarstarfsemi og starf sem fram undan er. Hv. þm. Illugi Gunnarsson minntist í lokaorðum sínum á tækifæri Íslands og hvaða möguleikar væru fyrir íslenskt samfélag og íslenska þjóð til að vinna sig út úr því ástandi sem nú er. Tek ég undir það heils hugar. Einn af stærri vöndum, nei, eitt af helstu vandamálum íslensks þjóðfélags í dag — það má svo sem kalla það vendi, refsivönd íslensks samfélags, það er ríkisstjórnin — er ákvarðanafælni og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Mats Josefsson lýsti vel hér á ráðstefnu um erlenda fjárfestingu ástæðum þess að hann teldi að ekki væri búið að endurreisa bankakerfið. Hann sagði að það væri m.a. ákvörðunarfælni, það væri ekkert skipulag á því hver ætti að taka ákvörðun um hvaða hluti og slíkt. Það virðist vera einkenni þessarar ríkisstjórnar að geta ekki tekið ákvarðanir. Því miður eru svo þær fáu ákvarðanir sem eru teknar yfirleitt til skaða eða alveg kolrangar.

Traust á stjórnvöldum er eitt af mikilvægu atriðunum. Á sömu ráðstefnu og ég nefndi áðan var erlendur fjárfestir sem margir kannast við og er í forsvari fyrir fyrirtæki sem heitir Magma Energy spurður hver væri helsti galli eða hvað væri hægt að gagnrýna varðandi það að koma til Íslands. Hann lýsti Íslandi í mörgum fögrum orðum og taldi að við hefðum allt upp á að bjóða til að laða að fjárfesta og við ættum klárlega framtíð fyrir okkur og þyrftum í rauninni að vera óhrædd við að fara í ný verkefni, en það sem væri kannski helst vandamál væri að stjórnvöld væru ekki nógu gestrisin í raun þegar erlendir fjárfestar kæmu til landsins. Hvort það er dæmi um litla gestrisni að svara ekki tölvupóstinum fræga sem barst frá Japan eða einhvers staðar að sem var um fjárfestingu upp á 120 milljarða eða þaðan af meira og síðan viðtökurnar þegar fjárfestir kom frá Kanada, látum vera í hverju hann ætlaði sér að fjárfesta. Það var ekki tekið viðeigandi á móti honum.

Vandinn við þetta er ekki sá að það sé tekið illa á móti einhverjum einum manni. Þetta eru atvinnufjárfestar, þetta eru erlendir aðilar og þeir fara út um allt og leita sér að fjárfestingu. Ef orðspor Íslands er með þessum hætti erlendis fælir það vitanlega frá aðra fjárfesta. Ég held að sú ríkisstjórn sem nú situr þurfi aðeins að taka til hjá sér varðandi þessi mál.

Frú forseti. Í ályktuninni sjálfri kemur m.a. fram að ætlunin sé að auðvelda fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Síðan eru í þremur liðum ræddir helstu áherslupunktar varðandi það. Af þessum þremur eru a.m.k. tveir, held ég, sem munu ekki síður gagnast íslenskum fjárfestum í íslenskum fyrirtækjum eða aðilum sem vilja byggja hér upp eða ráðast í fjárfestingar. Það eru þá liðir b og c varðandi það að gera áætlun um orkuafhendingu og varðandi endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Ég hef hugsað töluvert um það þegar sagt er í ræðustól Alþingis og annars staðar að við þurfum að koma okkur upp einhvers konar banka með orku, eiga 300–400 megavött á lager til að bjóða fyrirtækjum upp á, og held að það sé hárrétt. Við þyrftum að geta gert þetta en ég velti fyrir mér hvernig við eigum að gera þetta, hvernig við eigum að hafa efni á að koma upp þessum banka í rauninni. Það kostar væntanlega tugi eða hundruð milljarða að koma upp slíku fyrirbæri og halda því við. Og hver á að bera þann kostnað sem því fylgir? Það getur vel verið að hægt sé að tryggja lágmarksaðgang að orku í kerfinu með hverri virkjun þá, það sé alltaf eitthvað eftir eða eitthvað slíkt, það kann að vera, en einhver mun þurfa að borga fyrir þetta og þá verða það væntanlega neytendur og notendur sem munu borga fyrir þetta á endanum. Ég sé ekki fyrir mér að ríkissjóður eða orkufyrirtækin geti gert það. En hugsunin er góð og ég get tekið undir að það væri æskilegt ef það væri hægt.

Í greinargerð er farið yfir ýmsa vankanta á málum er snerta þá liði sem hér eru ræddir. Ég held að eitt af því sem mestu skiptir sé nákvæmlega þetta, það þurfa að vera skýrar reglur, skýr löggjöf, skýrir valkostir fyrir þá erlendu aðila sem hingað koma og vilja fjárfesta. Það á ekki að þurfa að þvæla þeim fram og til baka út um allar trissur, milli ráðuneyta, milli embættismanna, til þess að komast að einhverri niðurstöðu. Það getur verið að hér þurfi að grípa til einhverra stórkarlalegra breytinga á stjórnkerfinu og þá er það bara nokkuð sem þarf að skoða.

Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Hlutverk stjórnvalda er að skapa þá umgjörð sem þarf til að hvetja erlenda fjárfesta til atvinnusköpunar en ekki að setja upp óþarfa hindranir sem letja erlenda fjárfestingu.“

Þetta er vitanlega laukrétt, en ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að helsti tappinn varðandi fjárfestingar í dag sé stjórnvöld sjálf.

Síðan eru nefnd áhugaverð atriði á bls. 2. Þar segir, frú forseti:

„Undanþágur á virðisaukaskatti vegna innflutnings tölvubúnaðar fyrir gagnaver og staðfesting á að fyrirtækjaskattar verði ekki hækkaðir umfram tiltekin mörk eru nýleg en mikilvæg dæmi um atriði sem gætu skipt sköpum um árangur á þessu sviði.“

Ég held að ef við ætlum að hasla okkur völl, t.d. varðandi gagnaver af því að þetta snertir beinlínis þau miklu tækifæri sem þar eru, eigum við að skoða einmitt þessa hugmynd og skoða mjög vandlega hvort ekki eigi hreinlega að gera ákveðnar undanþágur varðandi innflutning á búnaði fyrir þessa starfsemi. Það eru gríðarleg vaxtartækifæri á Íslandi akkúrat fyrir þennan geira, mikil fjárfesting, mikil menntun, mikil tækifæri.

Ég verð hins vegar aðeins að segja að það er athyglisvert í hinum hluta textans sem ég las upp, sem er í sjálfu sér held ég bara ágætt, að það er ekki útilokað að hækka skatta á fyrirtæki, ef ég skil þetta rétt, en hins vegar er hvatt til að það sé gert mjög varlega. Ég held í sjálfu sér að atvinnulífið og fyrirtækin séu reiðubúin að taka á sig hærri greiðslur til samfélagsins meðan svona illa árar. En það er rangt að gera það með því að koma aftan að atvinnulífinu, skella á sköttum og gjöldum þvert ofan í fyrri yfirlýsingar og annað. Við eigum að sjálfsögðu að setjast niður og ræða við þessa aðila því að hef heyrt m.a. fulltrúa frá atvinnulífinu fara ágætlega yfir tillögur sínar á fundi í iðnaðarnefnd og þær voru margar hverjar mjög áhugaverðar um það hvernig þeir gætu tekið þátt í uppbyggingunni.

Að lokum legg ég áherslu á tvennt, annars vegar tek ég undir þennan lið þar sem rætt er um orkuafhendingu, að mikilvægt sé að geta boðið upp á beintengingu við orkuver án tenginga við Landsnet og eins að endurskoðun á gjaldskrá Landsnets og raforkulögunum verði flýtt. Það er ekki hægt, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt við okkur hér, að endurskoðun á raforkulögunum verði lokið einhvern tímann um mitt næsta ár eða hvenær það var. Það þarf að flýta þessu og klára þetta miklu fyrr til að hægt sé að nýta þessi lög sem best og þær reglur sem þurfa að vera.

Síðan tek ég hér allra síðast undir með greinargerðinni, með leyfi frú forseta:

„Því er mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á umhverfismatsferlinu í þeim tilgangi að gera það skilvirkara og gagnsærra.“

Hér eru orð að sönnu. Ég ætla ekki að halda því fram og veit að flutningsmenn halda því ekki fram að það eigi eitthvað að slugsa, ef ég má nota það orð, varðandi umhverfismatið. Hins vegar er örugglega hægt að stytta ferlið og ná samt fram þeirri vönduðu umfjöllun sem þarf vissulega að vera. Ferlið á ekki að vera sett upp með þeim hætti að það beinlínis komi í veg fyrir að menn sýni því áhuga að fara í fjárfestingar og atvinnusköpun, það er öfugt.