142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að við þingmenn Norðausturkjördæmis hittum forsvarsmenn Eyþings í gær á ágætum fundi þar sem þeir fóru yfir stöðuna sem er grafalvarleg. Ég veit, eins og þingmaðurinn nefndi, að til stendur að funda með Vegagerðinni. Þar hafa menn vonir um að finna fjármagn sem gæti fleytt þeim yfir erfiðasta hjallann, til að halda úti almenningssamgöngum fram að áramótum hið minnsta.

Vandinn er reyndar stærri vegna þess að 3 milljónir og 250 þúsund af þessum 1 milljarði sem veittur var til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu fór svo út um allt land — á meðan ég fékk þær upplýsingar að afslátturinn sem var veittur af olíugjaldinu til almenningssamgangna hefði verið lækkaður. Þessir fjármunir urðu í raun að engu þegar afslátturinn var lækkaður. Mér skilst að það hafi verið gert síðasta vor af ráðherra einhliða, við þurfum reyndar að fá upplýsingar um það á þinginu.

Ég sagði mjög skýrt að það væri verkefni samgöngunefndar að taka málið upp, reyna að halda úti þessari ágætu þjónustu, sem hefur mælst mjög vel fyrir, og sjá hvort ekki sé hægt í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að halda því úti og hvort ekki sé hægt að finna fjármagn, þá bæði í væntanlegum fjárlögum eða fjáraukalögum ef vilji stendur til þess. Ég er reiðubúinn og veit að það er vilji (Forseti hringir.) þingmanna nefndarinnar að taka (Forseti hringir.) málið og ræða það.