142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að efna til umræðu um leigumarkaðinn. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Raunar hefur þörf fyrir umræður og aðgerðir verið lengi fyrir hendi. Þess vegna hef ég líka margsinnis vakið máls á vandanum, skrifað greinar og rætt málið opinberlega.

Ég vil líka fá að nota tækifærið og þakka þingflokki Samfylkingarinnar fyrir nýframkomna þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkaðinn. Flest það sem þar er að finna er eins og út úr mínum eigin huga talað og styður þær áherslur sem ég hef talað fyrir að undanförnu og er þegar farin að skoða eða jafnvel hrinda í framkvæmd.

Þessi vandi er ekki nýr. Hér á landi hefur aldrei verið til leigumarkaður sem stendur undir nafni, enda Íslendingar þekktir fyrir séreignarstefnu í húsnæðismálum. Þeir fáu sem leigðu á árum áður bjuggu við lítið húsnæðisöryggi og nánast allir höfðu það að leiðarljósi að eignast fyrr eða síðar eigið húsnæði. Eftir hrun haustið 2008 fór staðan að breytast og þróunin hefur verið ör síðan. Æ fleiri búa nú í leiguhúsnæði eða vilja búa í leiguhúsnæði, en markaðurinn er ekki fyrir hendi.

Capacent vann greiningu á húsaleigumarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu fyrir Íbúðalánasjóð haustið 2011. Á þeim tíma lá fyrir að um 18% landsmanna bjuggu í leiguhúsnæði og um helmingur þess hóps í húsnæði með niðurgreiddri húsaleigu. Capacent sagði í skýrslunni að á höfuðborgarsvæðinu væri til skemmri og lengri tíma þörf fyrir um 13.000 fleiri leiguíbúðir og þar af um 8.800 á næstu þremur árum. Könnun sem Capacent gerði leiddi í ljós að um 70% fleiri Íslendingar vildu leigja sér íbúð en gerðu það á þessum tíma og hlutfallslega flestir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta mundi jafngilda tvöföldun leigjenda í Reykjavík. Við getum því ætlað að eftirspurn eftir leiguhúsnæði eigi enn eftir að aukast. Það verður að svara því kalli með raunhæfum aðgerðum. Það er ekki nóg að tala og lýsa góðum vilja, það verður að gera eitthvað.

Á það hef ég bent og jafnframt átt í viðræðum við ýmsa aðila um hvaða aðgerðir séu líklegar til að skila árangri. Verkalýðshreyfingin talar fyrir umbótum í húsnæðismálum og fram hefur komið að ASÍ vill beita sér fyrir því að komið verði á fót varanlegu og traustu húsnæðiskerfi. Hið sama get ég sagt um BSRB sem hefur viljað hafa frumkvæði að því að tryggja að við séum hér með félagslegt íbúðakerfi.

Markmið þeirra sem eiga og reka leigufélög verða að snúast um aukið framboð og hagkvæmari leigu íbúða til langs tíma. Ég tel verkalýðsfélögin öðrum betur fallin til að sinna þessu hlutverki. Þau bera hagsmuni félagsmanna sinna fyrir brjósti, eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa traustan rekstrargrundvöll. Áhugi og vilji verkalýðsfélaganna liggur fyrir og lífeyrissjóðir hafa verið með til skoðunar að undanförnu hvort þeir geti fjárfest með aðkomu að uppbyggingu leigumarkaðar fyrir íbúðarhúsnæði.

Ég hef þegar fundað með nokkrum af þessum aðilum og rætt um mögulega aðkomu þeirra að uppbyggingu leigumarkaðar. Ég hef líka hreyft þeirri hugmynd að átak í uppbyggingu leiguhúsnæðis geti orðið hluti kjarasamninga í anda júlísamkomulagsins frá árinu 1965 þegar samkomulag varð milli verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og borgar um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Samkomulagið var þá liður í lausn á erfiðri vinnudeilu, í stað launahækkana var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík og varð það grunnurinn að Breiðholtinu þar sem ég sjálf ólst upp.

Þetta var síðan jafnvel líka fyrirmynd að seinni tíma samningum um þjóðarsátt þar sem samið var um fleira en kaup og kjör.

Virðulegi forseti. Það er ekki síst raunverulegt húsnæðisöryggi sem er mikilvægt að tryggja fólki á leigumarkaði, en jafnframt viðráðanleg kjör því að yfirleitt eru leigjendur tekjulágt fólk. Mér finnst sjálfsagt að breyta núverandi kerfi þannig að húsnæðiseigendur og leigjendur sitji við sama borð þegar kemur að stuðningi frá hinu opinbera. Ég er líka talsmaður þess að byggingarreglugerð verði breytt og þannig greitt fyrir uppbyggingu lítilla íbúða fyrir tekjulága einstaklinga sem eru að hefja búskap og þurfa ekki á mörgum fermetrum að halda.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar hafið vinnu við endurskoðun á byggingarreglugerðinni í þessum anda. Ríki og sveitarfélög mega ekki láta sitt eftir liggja til að liðka fyrir þessu máli. Ég hef talað fyrir því að leigufélög sem byggja án hagnaðarsjónarmiða fái byggingarlóðir á kostnaðarverði og eins eru miklir möguleikar á því að bæta skattumhverfi leigufélaga. Til dæmis gæti ríkið fellt niður stimpilgjöld á skuldabréfum þeirra og fleiri leiðir kunna að vera færar, eins og bent hefur verið á í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar.

Ég vil að lokum nefna sérstaklega að Reykjavíkurborg hefur verið með mjög góðar hugmyndir og vinnu sem þessu máli tengist. Ég hef þegar sent svar við beiðni hennar um samstarf, um það að ég sé mjög jákvæð gagnvart því og hef tilnefnt fulltrúa í starfshóp um það hvernig hægt sé að fjölga leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef mikinn áhuga á því að ræða líka við bæjarstjórn Kópavogs sem steig fram í gær með sambærilegar hugmyndir.