143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[16:08]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki eiginlegt andsvar heldur meðsvar. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu hjá hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur. Fregnir um plasteyjurnar sem slíkar eru verulegt áhyggjuefni. Allt sem hún rakti hér áðan er alveg hárrétt. Við búum í þjóðfélagi sem dýrkar plastið umfram öll önnur efni. Ég ætla ekkert að fara neitt dýpra í það. Hins vegar verð ég alltaf mjög ánægð þegar ég sé fólk draga upp innkaupapoka í verslunum, sem það notar aftur og aftur og aftur. Ég minnist með ánægju þeirra daga þegar maður fór í kjötbúðina heima og öll vara var pökkuð í dagblöð sem var verið að endurnýta eða einhvern pappír sem var verið að nota í annað skipti.

Við erum líka í vandræðum með plastið heima hjá okkur. Þar safnast upp alls konar plastumbúðir og þó að plastið hafi verið þörf og góð uppfinning á sínum tíma þá er þetta orðið dæmi um ofneyslu á tilteknu efni. Ég velti því fyrir mér hver verði umsögn framtíðarinnar um plastöldina miklu. Hvað mun það hafa í för með sér ef ekki verður spyrnt við fótum?

Ég ætla að láta þetta duga. Þakka þér kærlega fyrir, hv. þingmaður.