143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er á þskj. 198 og 166. mál.

Auk mín, sem er 1. flutningsmaður þessa frumvarps, eru aðrir hv. þingmenn meðflutningsmenn en þeir eru alls 14 talsins, hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Elsa Lára Arnardóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Róbert Marshall, Árni Páll Árnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Willum Þór Þórsson, Guðbjartur Hannesson, Vilhjálmur Bjarnason, Vilhjálmur Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson og Össur Skarphéðinsson.

Frumvarpið er í tveimur greinum. 1. gr. er um það að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í greininni er talað um upphitun íbúðarhúsnæðis, sem er smábreyting frá fyrri flutningi frumvarpsins.

Í 2. gr. er fjallað um að lögin öðlist þegar gildi, en ákvæði laga þessara falla úr gildi að liðnum fimm árum frá gildistöku þeirra.

Mun ég nú, virðulegi forseti, fara betur yfir þetta mál. Í greinargerð með frumvarpinu stendur m.a.:

Frumvarp þetta var áður flutt á 139. þingi sem 393. mál. Þá var 1. flutningsmaður hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Að lokinni 1. umr. var málinu þá vísað til efnahags- og skattanefndar, kallað eftir umsögnum og málið rætt í nefndinni en ekki afgreitt þaðan. Málið var einnig flutt á 140. þingi sem 32. mál. Síðast var málið lagt fram á 141. þingi sem 60. mál og var því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni 1. umr. Nefndin kallaði eftir umsögnum og var málið tekið til meðferðar og það afgreitt frá nefndinni með nefndaráliti á þskj. 1289, sem ég mun fjalla hér um, virðulegi forseti, í lok míns máls með þeirri greinargerð sem ég ætla að lesa hér upp.

Húshitunarkostnaður á landsbyggðinni hefur víða verið mjög sligandi fyrir afkomu heimila. Þrátt fyrir að allnokkru fé sé með niðurgreiðslum varið til þess að lækka kostnaðinn er hann mjög íþyngjandi. Því miður hefur þróunin á síðustu árum orðið til verri vegar. Niðurgreiðslurnar sem hafa farið í að lækka húshitunarkostnaðinn á svokölluðum „köldum svæðum“ hafa alls ekki haldið í við þróun orkukostnaðar og þess vegna hefur hann lagst með vaxandi þunga á heimilin í landinu. Þá hafa raunlaun almennt lækkað og því má ljóst vera að húshitunin tekur æ stærri toll af ráðstöfunarfé almennings sem býr á hinum svokölluðu köldu svæðum.

Sem betur fer tókst bærilega til á fyrstu árum þessarar aldar. Frá árinu 2000 til 2002/2003 lækkaði kyndingarkostnaðurinn að raungildi um fimmtung, eða því sem næst, en síðan hefur þróunin verið á verri veg. Sérstaklega á þetta við á svæðum þar sem búa 200 manns eða færri. Þar hefur húshitunarkostnaður hækkað verulega.

Þróun þessi birtist mjög skýrt í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn þáverandi fyrsta flutningsmanns, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, á 139. þingi sem birt er sem fylgiskjal með þessu frumvarpi. Vekja má athygli á eftirfarandi upplýsingum: Kostnaður við að hita 180 fermetra húsnæði í dreifbýli á svæði Rariks var í október 2010 talinn vera um 238 þús. kr. Kostnaðurinn var 166 þús. kr. árið 2000 og fór lægst niður í 138 þús. kr. árið 2002, reiknað til verðlags þegar fyrirspurninni var svarað. Hækkunin frá árinu 2000 var því um 43%, en hvorki meira né minna en 72% væri árið 2002 tekið til viðmiðunar. Ekki er fyrir séð að þessari þróun verði snúið við heldur þvert á móti.

Athyglisvert er að skoða til samanburðar þróun húshitunarkostnaðar á svæði Orkuveitu Reykjavíkur. Þar var talið að í október 2010 kostaði um 93 þús. kr. á ári að kynda sambærilegt húsnæði, eftir hækkun fyrirtækisins sem var afar umtöluð. Árið 2000 var kostnaðurinn 100 þús. kr. og var lægstur 2009, eða um 72 þús. kr. á verðlagi ársins 2010.

Með þessari upptalningu, virðulegi forseti, sést hversu gífurlegur kostnaðarmunurinn er þegar þessar tvær veitur eru bornar saman, annars vegar kyndingu á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar í hinum litlu byggðarlögum eða á litlum svæðum eða í strjálbýli þar sem kostnaðurinn er eins og ég gerði hér að umtalsefni. Þetta er himinhár mismunur sem er eitt mesta óréttlætismál sem viðgengst hér á landi og eru þau þó mörg fyrir.

Í tillögu til byggðaáætlunar sem lá fyrir Alþingi þegar frumvarp þetta var fyrst flutt á 139. löggjafarþingi var kveðið afdráttarlaust upp úr um að hitaveituvæðing á Íslandi hefði nánast náð hámarki hvað hagkvæmni varðaði. Þess er bersýnilega ekki að vænta að jarðhitaleit verði haldið áfram að einhverju marki. Vonir um lækkun húshitunarkostnaðar með nýjum hitaveitum eru því augljóslega litlar að mati stjórnvalda. Þess í stað er bent á aðrar lausnir til umhverfisvænnar orkuöflunar sem mætti styrkja með svipuðum hætti og hitaveitur hafa verið styrktar fram að þessu. Í því sambandi er m.a. vísað á notkun á varmadælum.

Um varmadælur hefur talsvert verið fjallað og athuganir gerðar á fýsileika á notkun þeirra. Orkusetrið á Akureyri birtir til að mynda talsverðan fróðleik um þær á heimasíðu sinni. Þar er þessum möguleika m.a. lýst svo:

„Varmadælur hafa notið síaukinna vinsælda á norðlægum slóðum þar sem þörf er á upphitun húsa stóran hluta ársins. Í Svíþjóð eru t.d. 95% allra nýbygginga útbúnar varmadælum. Ísland hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að húshitun þar sem langstærsti hluti bygginga er hitaður með ódýrum jarðvarma. Um 8% notenda“ — hér á Íslandi — „kynda þó hús sín með rafhitun þar sem varmadælur kæmu í sumum tilfellum til greina sem vænlegur kostur til að draga úr orkunotkun.“

Virðulegi forseti. Hér vil ég skjóta því inn að þekkt eru dæmi frá nokkrum og kannski eru þekktust dæmin frá tveimur, þremur aðilum austur í Neskaupstað, sem halda úti heimasíðu og fésbókarsíðu um varmadælur og þann kostnað sem fólk sem notar þær fær annars vegar af uppbyggingunni en hins vegar af orkusparnaðinum. Þar má sjá að 50–60% sparnaður felst í húshitun íbúðarhúsnæðis við það að taka í notkun varmadælu af þeim framtakssömu mönnum og konum sem það hafa gert á þessu svæði. Fleiri dæmi eru auðvitað til um það hér á landi en í allt of litlum mæli eins og ég gat hér um þar sem ég benti á að 95% nýbygginga í Svíþjóð væru útbúnar varmadælum.

„Varmadæla samanstendur venjulega af dælubúnaði og leiðslum sem mynda lokað gas/vökvakerfi. Í gas/vökvakerfinu er ákveðið efni eða svokallaður vinnslumiðill sem breytir um fasa á leið sinni um kerfið. Við þessar fasabreytingar myndast varmaorka sem nýta má til húshitunar. Varmadæla skilar frá sér varmaorku til upphitunar en þarf til þess raforku til að knýja dælukerfið en sú raforka er þó mun minni en þyrfti við hefðbundna rafhitun. Orkuhagkvæmni varmadælu ræðst því af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá henni og orkunnar sem þarf til að knýja hana.“

Nokkrar umsagnir bárust um frumvarpið á 141. þingi og almennt voru þær jákvæðar. Fram kom að varmadælur stæðu jafnfætis ódýrustu hitaveitum í landinu og því væri hagur allra að örva útbreiðslu og notkun þeirra á svokölluðum köldum svæðum. Auk þess var vakin athygli á því að ekki væri skynsamleg orkunýting að nota hágæða raforku til að breyta í lággæða hitaorku og að með notkun varmadælna mætti mæta sömu hitunarþörf með færri kílóvattstundum af hágæða raforku. Afkastageta raforkukerfisins skerðist ekkert með uppsetningu varmadælu sem þýðir að þær kílóvattstundir sem sparast má nota í aðra uppbyggingu.

Það er vert að vekja sérstaklega athygli á því, virðulegi forseti, að við það að varmadælum yrði fjölgað hér á landi og fýsileiki þeirra aukinn mundi sparast raforka og þar af leiðandi draga úr þörf á nýbyggingu virkjana hvað það varðar.

Í umsögn Orkuseturs Akureyrar segir, með leyfi forseta:

„Með varmadælu er í raun verið að skila verðmætri raforku til baka inn í kerfið og því má segja að varmadælur séu okkar smæstu virkjanir. […] Endurgreiðsla virðisaukaskatts myndi auka hagkvæmni varmadæluuppsetninga og flýta mjög sparnaði á raforkunotkun til hitunar sem svo aftur dregur verulega úr niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs.“

Það er vert að benda á þetta líka vegna þess að með fleiri varmadælum minnkar niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs hvað það varðar.

„Endurgreiðsla af varmadælum væri mikilvæg mótvægisaðgerð vegna síhækkandi upphitunarkostnaðar fólks á rafkyntum svæðum.“

Í umsögn ríkisskattstjóra var vakin athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi taldi ríkisskattstjóri gildissvið frumvarpsins of rúmt þar sem ekki lægi ljóst fyrir hvort heimildin ætti að gilda bæði um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Gerð hefur verið breyting á frumvarpstexta frá síðustu framlagningu málsins til að bregðast meðal annars við þessari athugasemd ríkisskattstjóra. Þá benti ríkisskattstjóri einnig á að orðalagið „og tengdum búnaði til húshitunar“ væri nokkuð opið og til þess fallið að kalla á matskenndar ákvarðanir. Orðalagið hefur verið fellt brott úr frumvarpstexta og hefur þessari óvissu því verið eytt.

Virðulegi forseti. Án þess að dómur sé lagður á það að öðru leyti er stofnkostnaður við varmadælukyndingu talsverður, m.a. vegna þess að þær bera margvísleg gjöld, svo sem tolla og 25,5% virðisaukaskatt. Með breytingum á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar var opnað fyrir það að ríkið gæti tekið þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun sem drægi úr rafhitun eða olíukyndingu. Þetta er sannarlega skref í rétta átt en þó er ljóst að betur má ef duga skal.

Stofnkostnaður við varmadælur er talsverður og því mun taka nokkur ár að greiða hann niður með mögulegum ávinningi í lægri húshitunarkostnaði. Hætt er við að fáir sjái sér hag í því að fjárfesta í svona búnaði. Þess vegna er eðlilegt að ríkið afnemi tolla og endurgreiði virðisaukaskatt af varmadælum, að minnsta kosti tímabundið, til þess að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar og er það lagt til í þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Það hefur komið hér fram að þeir sem eru með dýrustu hitunina séu um 8% íbúa þannig að það gæti verið að með þessu yrði komið til móts við um 25 þús. manns.

Þrátt fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælu er ljóst að húshitunarkostnaður á ýmsum landsvæðum verður hærri en viðunandi getur talist um ókomin ár. Áfram verður því að halda með niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði þar sem hann er hæstur jafnframt því að leita annarra leiða til þess að draga úr þeim mikla og sára kostnaði sem víða birtist okkur á þessu sviði á landsbyggðinni.

Síðan er sett sem fylgiskjal með þessu frumvarpi svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um húshitunarkostnað, sem er á þskj. 234 í 27. máli á 139. löggjafarþingi. Þar voru settar fram nokkrar fyrirspurnir og í svari við annarri fyrirspurn sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Þar sem hér á landi er að finna margar litlar hitaveitur sem þjóna fáum íbúum og þar með mjög mörg orkuveitusvæði var að höfðu samráði við fyrirspyrjanda ákveðið að í svarinu yrði verð á húshitun einskorðað við færri svæði. Verðsamanburður“ — sá sem ég hef hér gert að umtalsefni — „nær yfir fjögur svæði þar sem raforka er notuð til húshitunar, þ.e. hjá Rarik í þéttbýli og dreifbýli og hjá Orkubúi Vestfjarða í þéttbýli og dreifbýli. Þá er skoðuð verðþróun hjá fjórum hitaveitum og þremur kyntum hitaveitum. Með því að skoða þessa þrjá flokka er talið að hægt sé að setja fram gott yfirlit yfir kostnað við húshitun hér á landi á umræddu tímabili.

Ráðuneytið fékk aðstoð Orkustofnunar við að svara fyrirspurninni. Í útreikningum stofnunarinnar er horft til heildarverðs til neytenda með öllum sköttum og gert ráð fyrir niðurgreiðslum þar sem það á við. Hafa þarf í huga að á þessu tímabili hefur heildarfjöldi kílóvattstunda sem er niðurgreiddur ekki alltaf verið sá sami. Árið 2002 var hámark niðurgreiddra kílóvattstunda hækkað úr 30.000 kílóvattstundum á ári í 50.000 kílóvattstundir. Árið 2005 var hámarkið aftur lækkað og þá í 35.000 kílóvattstundir. Hámarkið var aftur hækkað árið 2006 og þá í 40.000 kílóvattstundir og hefur haldist óbreytt síðan.“

Það er rétt að geta þess, virðulegi forseti, að þetta var auðvitað gert í ýmsum tilgangi, m.a. til þess að hvetja fólk til orkusparnaðar og til að einangra hús betur og laga glugga o.s.frv.

Áfram með svar við þessari fyrirspurn:

„Í tölunum er gert ráð fyrir sömu orkuþörf þrátt fyrir að mismikla orku þurfi til að viðhalda sama innihitastigi eftir því hvar á landinu húsið er. Þá er gert ráð fyrir að ofnakerfi á svæðum þar sem framrásarhiti heits vatns er lágur sé stærra en ella og er því gert ráð fyrir að hiti sé nýttur niður í 35°C. Þá er kyndikostnaður oft afar mismunandi eftir aldri og einangrun húsa. Getur t.d. nýtt gler og gluggaumbúnaður skipt sköpum í kyndingarkostnaði landsmanna.“

Virðulegi forseti. Þess má geta að í gangi hefur verið átak þar sem hvatt hefur verið til þess að þetta verði gert.

Síðan eru töflur í frumvarpinu þar sem fjallað er um húsnæði og borið saman, eins og hér hefur verið gert að umtalsefni, 100 fermetra húsnæði, 140 fermetra húsnæði, 180 fermetra húsnæði, sem ég hef nefnt, og 250 fermetra húsnæði. Þetta eru ákaflega fróðlegar töflur sem þarna eru settar fram. Í raun og veru ætti ekki að þurfa annað en þessar töflur til að sýna fram á mikilvægi samþykktar þessa frumvarps til að ríkisvaldið samþykki að gefa eftir toll og virðisaukaskatt af innflutningi varmadælna, alla vega til að setja upp á köldum svæðum og auðvitað alls staðar þar sem menn vilja en það mundi koma sér best á þeim svæðum sem ég hef gert að umtalsefni. Ég bendi aftur á þá reynslu sem kom fram í umsögn, ef ég man rétt, frá þeim frumkvöðlum sem þetta gerðu austur í Neskaupstað en þeir hafa eins og ég hef áður sagt birt yfirlit yfir orkukostnað sinn þar sem hægt er að bera tölurnar saman og sjá hvernig kostnaðurinn hefur lækkað.

Eins og kemur fram í greinargerðinni er stofnkostnaðurinn mikill hjá einstaklingum, með tolli og virðisaukaskatti. Það er kannski mörgum ofviða og gerir að verkum að fýsileikinn við að setja upp varmadælu er ekki eins mikill vegna þess að það tekur svo langan tíma að fá til baka þann fjárhagslega ávinning sem af því leiðir. Það má segja að ef ekkert verður gert munu miklu færri setja upp varmadælur og þar af leiðandi mun ríkissjóður ekki fá neinn toll og neinn virðisaukaskatt vegna þess hve fáir munu gera þetta. Þess vegna mundu, með samþykkt þessa frumvarps, þ.e. með því að fella toll og virðisaukaskatt niður af varmadælum, fleiri kaupa varmadælur, ríkissjóður tapar engum tekjum, en ríkissjóður mundi í framtíðinni fá ávinning með lægri niðurgreiðslukostnaði eða ekki eins mikilli þörf til að auka niðurgreiðslur vegna þess að niðurgreiðslurnar munu þá deilast út til færri aðila hvað það varðar.

Eins og ég segi, virðulegi forseti, þá held ég að þetta mál sé mjög mikilvægt til þess að koma til móts við fólk á köldum svæðum sem telst vera 8% íbúa þessa lands, sem er að sligast af miklum og háum upphitunarkostnaði. Þess vegna er þetta kannski eitt hið mesta jafnréttismál sem hægt er að hugsa sér.

Ég vil því trúa því, virðulegi forseti, um leið og ég legg til að þetta mál fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar og úrvinnslu, að nefndin komist að sömu niðurstöðu og síðasta nefnd gerði vegna þess að sú nefnd kláraði málið. Málið var tekið úr nefnd og nefndin lagði til að frumvarpið yrði samþykkt með þeirri breytingu sem við flutningsmenn höfum sett hér inn, þ.e. að skilyrt verði að þetta eigi við um varmadælur til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Allir nefndarmenn sem voru á fundinum, átta talsins, samþykktu nefndarálitið og lögðu þetta til á Alþingi.

Hvers vegna var það ekki samþykkt, virðulegi forseti? Ég hygg að þrátt fyrir góð tilmæli þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem nú situr í forsetastóli, Steingríms J. Sigfússonar, sem lýsti sig samþykkan frumvarpinu, þá náði málið einfaldlega ekki fram eins og oft gerist á lokadögum þingsins. Þá eru þingmannafrumvörp tekin úr nefndum og lenda með restinni af þeim þingstörfum sem liggja fyrir þar sem mörg þingmál, mörg stjórnarfrumvörp og mikil umræða er í gangi. Það vill líka gerast þegar talað er um gott mál eins og þarna var þá vilja menn endilega hnýta við það aðrar tillögur. Ég er ekki að segja að það hafi verið svoleiðis en það er eftirtektarvert og um leið virðingarvert að fyrrverandi efnahags- og viðskiptanefnd hafi klárað málið og lagt það fyrir þingið til 2. umr. og mælt með því að það yrði samþykkt með þeirri breytingu sem nefndin gerði.

Sú breyting, virðulegi forseti, að takmarka þetta við íbúðarhúsnæði er sjálfsögð. Hún skemmir ekki málið vegna þess að atvinnurekendur geta sett upp varmadælur líka. Þess ber að geta að í virðisaukaskattskerfinu fá fyrirtæki virðisaukaskattinn til baka sem innskatt. Því má segja að í þessu frumvarpi sé líka verið að jafna aðstöðu milli lögaðila og einstaklinga.

Við getum, virðulegi forseti, tekið dæmi: Ef ég ræki heimili mitt sem einkahlutafélag og vildi setja upp varmadælu og væri með virðisaukaskattsnúmer þá gæti ég fært þetta út og inn og allan kostnað við að setja dæluna upp alveg eins og að færa inn kostnað við húshitun. En það gerum við ekki við mikilvægustu hlutafélög landsins, sem eru fjölskyldurnar og heimilin.

Virðulegi forseti. Ég endurflyt því þetta frumvarp, sem 1. flutningsmaður þess, ásamt 14 öðrum þingmönnum úr öllum flokkum, ef ég man rétt, fyrir utan Pírata að vísu, ég sé að þeir eru ekki hér á, þeir voru ekki andvígir málinu en þeir þurftu meiri tíma til að skoða það áður en frumvarpið var lagt fram.

Hér er mál sem er mjög gott, getur haft mikla þjóðhagslega þýðingu, mjög mikla þýðingu fyrir að minnsta kosti 8% íbúa og jafnvel fleiri sem fá skjótvirkustu leiðina til að lækka húshitunarreikning sinn um 50–60% eftir því hvernig til tekst. Það þarf ekkert að velta því fyrir sér, virðulegi forseti, hvort þetta sé rétt vegna þess sem Orkusetrið hefur sett fram, þetta er reynsla frá nágrannalöndum okkar, og eins og ég sagði áður um þá aðila sem hafa gert þetta opinbert og birt það bæði á fésbókinni og annars staða þá kemur mikill fjárhagslegur ávinningur strax fram hjá þeim íbúum á Neskaupstað sem ég þekki best til, hef skoðað og fylgst með uppsetningu og rekstri.

Virðulegi forseti. Þar sem oft hefur verið rætt á Alþingi um hið mikla misrétti, sem ég hef gert að umtalsefni og finnst í greinargerðinni um húshitunarkostnað á köldum svæðum þar sem miðað er við það sem best gerist á höfuðborgarsvæðinu t.d., þá er þetta mjög mikilvægt mál inn í þá umræðu til að lækka húshitunarkostnað þeirra sem vilja fá sér varmadælu. Ég er alveg sannfærður um að verði þetta frumvarp samþykkt munum við sjá mjög marga íbúa á hinum köldu svæðum setja upp varmadælur og fá þar með mestu kjarabót sem þeir geta fengið, sem er að lækka húshitunarkostnað sinn um 50–60%.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frumvarpi vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég mundi gjarnan vilja að efnahags- og viðskiptanefnd leitaði umsagnar hjá hv. atvinnuveganefnd sem fjallar líka um þessi mál.