144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[14:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig á þessu enda var væntanlega aldrei annað í boði en að menn gætu kært niðurstöðu af því tagi, stjórnvaldsákvörðun eins og samþykkt Orkustofnunar. Ég veit ekki hvort það er endilega til bóta að hún sé kæranleg til ráðuneytisins og þaðan til dómstóla, kannski hefði bara átt að vera endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi í málinu. Ég held að það leysi ekki af hólmi þörfina fyrir það að einhvers konar fagleg gerð væri möguleg varðandi afmörkuð álitamál sem ágreiningur er um. Það að kæra niðurstöðu Orkustofnunar sem hefur samþykkt kerfisáætlun fyrir flutningskerfið í heild er væntanlega bara já- eða nei-niðurstaða úr dómstólum, annaðhvort stendur niðurstaða Orkustofnunar, um að kerfisáætlunin sé komin svona, eða hún gerir það ekki.

En ef menn hefðu með einhverjum hætti getað vísað ágreiningi um tiltekið mál, svo sem eins og það hvort á einu ákveðnu svæði ætti tiltekin lína að fara í jörð eða ekki, og það hefði farið fyrir einhvers konar gerð, getað verið kæranlegt áfram, hefði það kannski einfaldað málið frekar en hitt. Mér finnst að mörgu leyti málefnalegra að standa þannig að málum.

Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar að það sé eitthvað sem eigi að skoða í þessum efnum. Sú var tíðin að menn litu aðeins til Noregs í þeim efnum þar sem að einhverju leyti er um sambærilegan valkost að ræða þegar ágreiningur rís um línulagnir þar.

Varðandi þessi afar vandasömu mál sem snúa að skipulaginu þá eru það vissar fréttir fyrir mig ef Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu, hefur samþykkt þetta svona, það eru vissar fréttir, því að ég hef hitt það marga sveitarstjórnarmenn, einmitt á síðustu vikum, sem voru (Forseti hringir.) mjög órólegir yfir þessu. Þó að menn væru búnir að vera að vinna í málinu finnst mörgum ansi langt gengið eins og þetta er orðað þarna í c-lið 2. gr.