145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Mig langar til að þakka fulltrúum SALEK-hópsins svokallaða fyrir að hafa tekið upp þráðinn á ný í viðræðum um samstarf við að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi að norrænni fyrirmynd og leggja þar með sitt af mörkum til að leysa mjög alvarlega kjaradeilu sem stóð þá yfir, en leystist nú fyrir skömmu.

SALEK stendur fyrir Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Að nefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, Alþýðusambandið, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasamband Íslands, og fyrir hönd vinnuveitenda Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Hópurinn hefur undanfarin þrjú ár haft það að meginmarkmiði að Íslendingar tileinki sér samningagerð sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum en þar taka menn mið af svigrúmi samkeppnisgreinanna og semja svo út frá því. Markmiðið er að kjarasamningar tryggi aukinn kaupmátt og ógni ekki stöðugleika. Ég segi því: Áfram SALEK og breytum vinnulagi við kjarasamningagerð hér á landi til frambúðar.


Efnisorð er vísa í ræðuna