145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:25]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt er að vera ósammála því að það sé gott fyrir þjóðina að eiga bankana sjálf með einum eða öðrum hætti. Annað er að dylgja um það að nú standi til að selja þá einhverjum einkavinum með spilltum aðferðum.

Það er algerlega rangt hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að söluverð banka sé núvirtur væntanlegur arður framtíðarinnar. Hefur hann ekki heyrt um framboð og eftirspurn? Hvað ef enginn vill kaupa bankann eða fáir kaupendur eru á markaði? Þessi regla á bara við ef það er fullkominn markaður. Það er ekki fullkominn markaður fyrir íslenska banka. Það er ekki mörgum kaupendum til að dreifa. Hérna hafa margir talað fjálglega um að hægt sé að selja svona banka fyrir hátt verð. Ég held að það sé ekki rétt. Það væri þá kannski búið að því. Þessir bankar eru hins vegar í fákeppnisumhverfi og þeir dæla út arði, sama hversu lítil sem eftirspurnin er eftir þeim erlendis.

Ég held að það sé mikilvægt að nefna, því að ég held að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á allt viðtalið við mig í útvarpinu í morgun, að ég taldi upp hugsanlega kaupendur að slíkum banka. Þeir eru ekki á hverju strái á Íslandi. Það eru í raun og veru bara ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir sem geta keypt bankana. Ég held að lífeyrissjóðirnir sem nú eru að fara að fá inn miklu meiri iðgjöld — er ekki verið að hækka þau úr 12% upp í 15,5%? — muni þurfa að fjárfesta fyrir meira en 100–150 milljarða á ári. Fjárfestingarþörfin verður slík þegar þessi miklu iðgjöld koma inn, langt umfram þann lífeyri sem þeir greiða út þannig að það er kannski mjög heppilegt eignarform fyrir okkur sem þjóð. Við eigum lífeyrissjóðina saman. Af hverju getur ekki einhver af stóru lífeyrissjóðunum tekið að sér að eiga einn banka?

Ég er algerlega andvígur öllum spilltum og ógagnsæjum aðferðum við að selja banka eða einkavæða þá. Ég tel ekkert liggja á að hlaupa í það. Ég held til dæmis varðandi Landsbankann að hann eigi að vera áfram í eigu þjóðarinnar. Ég hef talað fyrir því, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason þekkir, að hann verði rekinn á samfélagslegum forsendum, ekki eingöngu með það að leiðarljósi að græða sem allra mest á þjóðinni heldur vera leiðandi í því að lækka hér vaxtastig, lækka (Forseti hringir.) þjónustugjöld sem leiðir til aukinnar samkeppni á markaðnum.