145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir með honum. Ég held að verið sé að hraða þessu máli því að ekki sé vilji hjá ríkisstjórninni til þess að rökræða það. Ég veit ekki hvaða hvatir liggja þar að baki, en ég man, eins og aðrir hafa einnig nefnt hér, að þegar þessi mál voru kynnt í Hörpu með lúðraþyt var megináherslan lögð á stöðugleikaskatt. Og við trúðum því að það væri sú leið sem fara ætti, eða a.m.k. ætti að nýta hana af fullum krafti til þess að knýja á um hagfellda niðurstöðu ef um stöðugleikaframlagsleiðina yrði að ræða. Fljótlega kom í ljós að stöðugleikaskatturinn var bara blöff. Það er kannski það sem sérstaklega Framsóknarflokkurinn er hræddur við að umræða skapist í kringum, þ.e. að sú niðurstaða sem kynnt var hér í júní, eða hvenær það var, sé bara ekki eins hagfelld og menn vildu láta líta út fyrir.

Ég sit ekki í efnahags- og viðskiptanefnd og treysti reyndar fulltrúa mínum þar, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, ákaflega vel, en við eigum að taka hér ákvörðun um gríðarlega stórt hagsmunamál. Ég sem þingmaður tel mig á engan hátt hafa gögn í höndunum til þess að geta farið í atkvæðagreiðslu. Einn af okkar betri þingmönnum, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, kemur hér fram með það að enn séu óleyst álitamál, órædd álitamál, og ónóg gögn. Fulltrúar í efnahags- og viðskiptanefnd kvarta yfir þessu í minnihlutaáliti sínu, og hvað þá með okkur hin sem ekki sitjum á þeim (Forseti hringir.) fundum sem helst hefðu átt að vera upplýsandi?