145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni þann möguleika að virði beggja bankanna væri minna en fram kemur í útreikningum ríkisstjórnarinnar. Ég skil málið vísast ekki jafn djúpum skilningi og hv. þingmaður, en eins og ég skil það mundi það í reynd leiða til þess að krónueignin væri minni og þess vegna mundi það ekki hafa neikvæð áhrif á fjármálalegan stöðugleika. En það er önnur saga.

Syndafallið kemur eftir okkar dag. Það er auðvitað viðhorf mjög margra þegar menn neita að horfast í augu við að það kunni að vera veikleikar í þessu máli. Ég segi kunna, ég er ekki að halda því fram. En eftir umræðuna í dag virðist mér sem það séu ýmsir þættir sem skoða þyrfti miklu betur en verið hefur gert. Það sem einkennir þá hins vegar er að það mun ekki koma fram á morgun, það mun ekki koma fram í næstu viku, ekki á næsta ári. Það kemur í fyrsta lagi fram eftir svona fimm, sjö, jafnvel tíu ár. Þá fyrst kemur í ljós hvort við höfum skotið undir markið með þeirri leið sem felst í stöðugleikaframlögunum. Hv. þingmaður gerði svo að umræðuefni hnjáliðamýkt og vísaði til Einars okkar frá Hermundarfelli. Það er nú leyfilegt að gera það. Það liggur fyrir og er sjálfsagt að rifja það upp að hæstv. forsætisráðherra vildi ekki fara samningaleiðina. Hann taldi að hún stappaði landráðum næst. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hrósa hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa að lokum séð að sú nálgun sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði, og ég fór hér yfir fyrr í kvöld, var rétt. Hún byggðist á samningum. Spurningin er hins vegar hvort sá trausti grunnur sem núverandi ríkisstjórn tók við hafi verið nýttur nægilega. Ég hef efasemdir og það er þess vegna sem ég hef miklar efasemdir um að ég geti fylgt þessu frumvarpi (Forseti hringir.) þó að ég vildi. En telur ekki hv. þingmaður að hægt hefði verið að ná samkomulagi (Forseti hringir.) ef stjórnarandstaðan og fleiri hefðu fengið að koma að (Forseti hringir.) málinu eins og í tíð síðustu ríkisstjórnar?