149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hv. þingmönnum fyrir framlagningu frumvarpsins. Við ræðum eitt af viðurstyggilegu brotunum sem eru kynferðisafbrot og stafrænt kynferðisafbrot er alveg jafn slæmt ef ekki jafnvel verra ef það leggst ofan á kynferðisafbrot, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Ég freista þess að koma upp og spyrja hv. þingmann í ljósi reynslu hennar af svona málum í fyrri störfum, sem hún vísaði í í ræðu sinni. Fram kemur í umsögn Dómarafélagsins við málið þegar það var lagt fram á síðasta þingi, og ég viðurkenni að ég þekki málið ekkert rosalega vel og ég veit að brugðist hefur verið við ýmsu, að réttarfarsnefnd hafi ekki yfirfarið það og þörf sé á frekari greiningarvinnu og undirbúningi. Ríkissaksóknari bendir á svipaða þætti.

Eins mikið og mér er umhugað um, eins og ég held öllum í þessum sal, að hörð viðurlög séu við þeim glæp sem stafrænt kynferðisafbrot er þá er það líka mjög vandmeðfarið þegar farið er í almennu hegningarlögin og þeim breytt og mikilvægt að vandað sé sérstaklega til verka. Mér þætti vænt um að heyra frá hv. þingmanni hvort hún telji málið fullbúið eins og það er núna eða hvort þörf sé á frekari greiningarvinnu.