150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna sem er nýtt orð yfir lánasjóðinn. Eins og áður hefur komið fram er aðalmarkmið frumvarpsins að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Það er algjört grundvallaratriði að allir hafi færi á að mennta sig sem vilja og eftir eigin getu.

Það sem ég set strax spurningarmerki við er þegar talað er um lánshæft nám og talið upp háskólanám, aðfaranám, starfsnám og viðbótarnám við framhaldsskóla. Þegar ég gekk menntaveginn og fór í Iðnskólann í Reykjavík var ég í almennu tréiðnaðarnámi þar sem ég þurfti að ákveða hvort ég vildi gerast húsasmiður, bátasmiður eða smíða eitthvað annað, t.d. húsgögn. Þó að þetta nám stæði samfellt í átta mánuði frá morgni til kvölds var það ekki lánshæft. Á nám sem varðar húsbyggingar, bátasmíði eða líf og heilsu fólks ekki að vera lánshæft? Ég tel að við eigum að sjá til þess að sama hvað einstaklingur vill læra eigi hann að hafa rétt á að fá lán til að stunda nám. Við erum að lenda í svolítið skrýtnu dæmi með framhaldsskóla og nám, verið er að gera nám einhæfara en áður að mörgu leyti vegna þess að einstaklingar einblína frekar á ákveðna hluti og námsgreinar eins og tölvunarfræði. Þetta þarf að endurskoða vegna þess að það eru oft ekki aðeins hefðbundnu háskólarnir sem veita mjög góða menntun í t.d. tölvunarfræði heldur gera aðrar stofnanir það líka en þeir sem vilja fara þangað að læra þurfa oft að kosta til gífurlegum fjármunum til að komast í það nám og margir hafa ekki efni á því.

Þetta er mjög gott frumvarp, ég vil taka það fram, og mjög góð bæting á lögunum sem gilda. Okkur ber að fagna öllum breytingum. Ég tel og vona að þetta sé fyrsta skrefið í gífurlegri breytingu á námslánum og öllum styrkjum í heild sinni. Ég set þó spurningarmerki við fyrirkomulagið sem kemur fram í 14. gr., að námsstyrkur skuli nema 30% niðurfærslu af höfuðstól námslánsins ásamt verðbótum að námi loknu. Til að fá þennan námsstyrk þarf tvær annir og 60 ECTS-einingar eða ígildi þeirra en til að fá námslán þarf 45 ECTS-einingar. Þarna á er svolítill munur. Tökum sem dæmi einstakling sem er með lesblindu eða ritblindu, sem ég tek ekki sem neitt neikvætt vegna þess að það er margsannað að lesblint fólk hefur gífurlega hæfileika á öðrum sviðum. Þetta hefur ekkert með gáfur að gera. Þessi einstaklingur getur lent í stökustu vandræðum, í fyrsta lagi við að komast í gegnum prófin. Þau eru yfirleitt ekki gerð fyrir þá einstaklinga. Í öðru lagi getur hann verið lengur að taka þau. Þá hugsa ég með mér: Þessi einstaklingur á aldrei mögulega á að fá námsstyrk. Hann getur lent í þeirri aðstöðu að hann fái aldrei slíkan styrk og það þurfum við auðvitað að taka með inn í dæmið. Okkur ber skylda til þess að gefa öllum tækifæri á jafnréttisgrundvelli. Þetta er hlutur sem ég myndi vilja að tekinn yrði til greina, bæði í nefnd og annars staðar.

Síðan erum við í öðrum tilfellum með einstaklinga með fötlun. Þar er gap. Maður gerir sér fyrir því að þegar maður er kominn með ákveðna fötlun séu margar hindranir í veginum. Við erum með ólíkar hindranir eftir því hvernig fötlun viðkomandi er, hvort hann er lögblindur eða með annars konar fötlun, en allt getur þetta tafið nám og valdið því að einstaklingur nær aldrei þeim einingafjölda sem þarf til að eiga möguleika á styrk. Þá þurfum við að hugsa dæmið öðruvísi. Getum við verið með annað styrkjakerfi fyrir þá einstaklinga til að hvetja þá áfram líka? Þetta hefur ekkert með gáfur að gera heldur hversu langan tíma fólk þarf til að ljúka náminu.

Annað sem ég hnaut um í greinargerð með frumvarpinu er í sambandi við vextina á bls. 18, með leyfi forseta:

„Til þess að kerfi það sem lagt er til í þessu frumvarpi virki eins og ætlast er til verða endurgreiðslur námslána að standa undir sér og ríkið hætti að niðurgreiða vexti til lánþega eins og er í núverandi kerfi.“

Ég er ekki sammála þessu. Ég met nám það mikils og held að nám sé það gott fyrir þjóðfélagið að við eigum ekki að tryggja að ríkið tapi ekki einhverju á því að fólk fari í nám. Við eigum að tryggja að allir komist í nám og helst tryggja að einstaklingar sem fara í nám geti lifað af kjörunum sem bjóðast.

Kvennastéttir eru í þeirri undarlegu stöðu að konur geta verið í námi í jafnvel sex ár og safnað gífurlega háum námslánum. Þegar þær koma síðan út á vinnumarkaðinn eru margar stéttir með ótrúlega lág laun. Maður heyrir að fyrir störf á leikskóla eða önnur störf við umönnun barna séu launin eftir fimm, sex ára háskólanám 300.000–400.000 kr. útborgað. Þetta er ekki boðlegt. Viðkomandi er með gífurlegan lánabagga á bakinu og við þurfum einhvern veginn að sjá til þess að það sé ekki bara starfsvalið sem gefur góða framtíð. Áhugi fólks endurspeglast í ákvörðun á starfi og við þurfum að tryggja að fólk velji sér starf eftir áhugasviði og hætti ekki við það og velji eitthvað annað vegna þess að það hugsar með sér: Nei, ég get ekki lifa af þessu.

Í núverandi kerfi eru vextir 1%. Ef við erum með verðtryggt lán og 1% vexti held ég að við séum í góðum málum miðað við kjör annars staðar í dag. Það er ákveðin óvissa uppi af því að nú hefur ásókn í námslán minnkað og ég held að það verði ekki hvati heldur þvert á móti ef vextir eru ekki alveg fastir, hvað við erum að bjóða, hvað við ætlum að hafa í vexti. Höfum vextina ekki fljótandi af því að ég held að það hræði. Við eigum að hugsa: Ókei, þetta er vissulega verðtryggt en höfum lágmarksvexti. Ríkissjóður getur alveg tekið á sig smásveiflu til eða frá og þess vegna ættum við að festa vexti, a.m.k. ekki hafa þá hærri en þeir eru í dag, 1%.

Ég fagna því sem hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir benti á, að það eru ívilnanir við endurgreiðslu námslána fyrir þá sem eru á svæðum þar sem tímabundið vantar einstaklinga til menntunar. Það hefur maður séð annars staðar og ég varð sérstaklega var við það á vegum Norðurlandaráðs í Noregi hvernig Norðmenn ívilna hjúkrunarfræðingum gegn því að vinna úti á landi. Í frumvarpinu er bent á norska fyrirmynd og það er bara mjög flott. Þetta er hlutur sem við verðum að huga að.

Það er flott að við skulum vera búin að fá þau svör að það verði grannskoðað í sambandi við ábyrgðarmenn því að við vitum að gamla kerfið var skelfilegt. Þeir sem voru ábyrgðarmenn gátu lent í skelfilegum vandræðum. Afar og ömmur, aðrir ættingjar og vinir skrifuðu upp á námslán og við vitum að það þarf ekki mikið út af að bera til að fólk lendi í erfiðleikum við að greiða af lánum.

Mér líst vel á þetta frumvarp og er að mörgu leyti sáttur. Ég tel það fyrsta skrefið í því að koma á góðu kerfi og ég vona heitt og innilega að við getum búið til kerfi sem mismunar engum heldur sitji allir við sama borð og helst líka að við tryggjum að allir sem hafa einhverja fötlun hafi nákvæmlega sömu möguleika til þess bæði að stunda nám og fá alla þá styrki og annað sem er í boði eins og allir hinir sem eru heilbrigðir.