150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara glöð í þessa leiðréttingu. Kannski er ástæðan fyrir því að ég kallaði þetta mál Píratamál eða sagði að við værum að leggja það fram í fyrsta lagi að hv. þm. Halldóra Mogensen er Pírati og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og þá hefur verið svona svolítið til siðs að leyfa sér að segja: Við höfum lagt þetta mál fram. En það er vissulega rétt að það verður til úr þeirri miklu vinnu sem er unnin í velferðarnefnd og það er vissulega gríðarlega ánægjulegt hve mikill stuðningur er við það og auðvitað er þetta miklu stærra mál en bara okkar Pírata. Ég leyfi mér þó að tengja Pírata við skaðaminnkunarstefnu og afglæpavæðingu vegna þess að það er eitthvað sem við höfum talað um og barist fyrir allt frá stofnun. Gleymum ekki t.d. þingsályktun sem varð að því plaggi sem er í raun leiðarvísirinn að neyslurýmunum hér og sömuleiðis afglæpavæðingu. Þótt ég taki heils hugar undir að það sé frábært að það séu fleiri hv. þingmenn með á þessu máli og að við eigum það öll saman tel ég eftir sem áður allt í lagi að segja að Píratar hafi barist fyrir afglæpavæðingu, hafi barist fyrir mannúðlegri meðferð gagnvart vímuefnanotendum í talsvert lengri tíma en þessi vinna hér hefur staðið og okkur þykir mjög vænt um að hún sé komin á þennan stað og að aðrir þingmenn taki undir með okkur og vinni með okkur að þessu mjög mikilvæga, mannúðlega og þarfa málefni.