150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

lögreglulög.

68. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér með frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996. Sex hv. þingmenn eru meðflutningsmenn með mér á þessu frumvarpi, þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Með frumvarpinu er lagt til að 31. gr. núgildandi lögreglulaga verði felld brott en í fyrirsögn þeirrar greinar er lagt bann við verkföllum og í greininni segir: „Lögreglumenn mega hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.“ Frumvarpið gengur sem sagt út á að lögreglumönnum verði leyfilegt að fara í verkfall og hljóti þannig verkfallsrétt á nýjan leik. Samhljóða frumvarp var fyrst flutt á 144. þingi, aftur á 145. þingi og á síðasta þingi, því 149., flutti ég málið að nýju og endurflyt nú hér.

Á 144. löggjafarþingi árið 2014 var mælt fyrir málinu og gekk það þá til allsherjar- og menntamálanefndar sem sendi það út til umsagnar. Skemmst er frá því að segja að allar þær átta umsagnir sem bárust voru jákvæðar í garð frumvarpsins en þær voru frá Landssambandi lögreglumanna, Félagi yfirlögregluþjóna, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Lögreglufélagi Eyjafjarðar, Lögreglufélagi Reykjavíkur, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Tollvarðafélagi Íslands.

Að mínu mati er það jafn brýnt nú og þegar frumvarpið var fyrst flutt haustið 2014 að lögreglumenn endurheimti rétt sinn til að sækja sér kjarabætur með verkfalli ef nauðsynlegt reynist. Verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum nr. 82/1986 sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögreglulögum. Fram til þess tíma höfðu lögreglumenn rétt til verkfalls líkt og aðrar stéttir innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja með þeim fyrirvara að skylt væri að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu á meðan á verkfalli stóð, samanber 26. gr. þágildandi laga um samningsrétt BSRB, nr. 29/1976. Á þessum tíma voru ný samningsréttarlög opinberra starfsmanna í deiglunni en fram að þeim tíma hafði verkfallsréttur opinberra starfsmanna verið í höndum heildarsamtakanna, BSRB, en nú lá fyrir að sá réttur færðist úr höndum BSRB til einstakra félaga. Sýnt var að þau félög sem höfðu óskoraðan verkfallsrétt myndu styrkjast sem einingar. Heilsugæslu- og öryggisstéttir höfðu búið við takmarkaðan verkfallsrétt og ekki voru talin líkindi til að réttur þeirra yrði rýmkaður í væntanlegum lögum. Flest benti þá til þess að verkfallsréttur lögreglumanna yrði afnuminn með öllu. Verkfallsréttur þeirra var á þann veg að heildarsamtökunum gæti reynst hann notadrjúgur ef til átaka kæmi. Hins vegar var varla talið að óbreyttur réttur yrði öflugt baráttutæki þegar lögreglumenn væru orðnir einir á báti og því skynsamlegt að reyna að finna aðra leið sem tryggði stéttinni eðlileg kjör. Kom þá til álita, frú forseti, að skipta á verkfallsrétti og kauptryggingu og hlaut sú hugmynd talsvert fylgi meðal lögreglumanna, enda margir á þeirri skoðun að skyldur þeirra við stjórnvöld og þá ekki síður við borgarana væri svo ríkar að verkfall eins og það birtist í sinni hörðustu mynd væri nánast óhugsandi.

Afnám verkfallsréttar var þannig hluti af samkomulagi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra 5. júlí 1986. Kveðið var á um afnám verkfallsréttar í bókun við samkomulagið en í stað þess skyldu lögreglumenn fá svokallaða kauptryggingu. Kauptryggingin átti að miða við kjör fjögurra tilgreindra starfshópa og fela í sér sömu meðalhækkun launa og þessi viðmiðunarhópar. Þau félög sem miða átti við voru BSRB, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Samband íslenskra bankamanna og Bandalag kennarafélaga. Samningurinn var staðfestur með naumum meiri hluta í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal lögreglumanna.

Allt frá því að framangreint samkomulag tók gildi voru uppi ólík sjónarmið um framkvæmd þess milli lögreglumanna annars vegar og ríkisins hins vegar. Útreikningur kauptryggingar fór ekki fram fyrstu árin eins og til stóð og gerðu lögreglumenn ítrekað athugasemdir við það. Eftir mikinn þrýsting af þeirra hálfu framkvæmdi Hagstofa Íslands umrædda útreikninga árið 1988 að beiðni fjármálaráðherra. Samkomulagið hafði kveðið á um möguleika til endurskoðunar á útreikningum af hálfu Landssambands lögreglumanna en ekki var um slíkt að ræða í reynd. Landssambandið taldi því þegar hér var komið sögu að samningsréttarákvæði kjarasamningsins frá 1986 væru brostin og óskaði m.a. eftir því að lögreglumenn fengju aftur verkfallsrétt, en án árangurs.

Frú forseti. Árið 2001 var framangreint kauptryggingarákvæði keypt út úr samningnum en í stað þess kom svokölluð gerðardómsleið sem Landssamband lögreglumanna hefur í tvígang, frá 2008, farið með kjaradeilur sínar í. Í bæði skiptin er hægt að fullyrða að þrátt fyrir þau ákvæði sem er að finna um gerðardómsleiðina í kjarasamningi landssambandsins var ekki farið að raunniðurstöðu við lúkningu þeirra tveggja kjaradeilna. Þar var vísað í ástand efnahagsmála í kjölfar hrunsins og aðra gerða kjarasamninga á vinnumarkaði. Þannig telja lögreglumenn að þeir hafi engan veginn haldið kjaralegri stöðu sinni frá því að réttur þeirra til verkfalla var numinn brott. Lögreglumenn hafa enda engin raunveruleg úrræði til að grípa til, til að þvinga samningsaðila sinn að raunverulegum lausnum kjaradeilna sinna, eins og t.d. að boða til yfirvinnubanns sem er hluti af verkfallsréttarvopni launþegahreyfingarinnar. Þannig hefur það gerst ítrekað frá afnámi verkfallsréttarins að gerð kjarasamninga við lögreglumenn hefur dregist fram úr hófi. Ekkert virðist liggja á fyrir viðsemjendur þeirra til að ganga frá gerð kjarasamnings við stétt sem ekkert getur annað gert til að knýja á um bætt kjör sín en að tala og skrifa greinar í fjölmiðla. Þess má geta í framhjáhlaupi að enn þann dag í dag er óútkljáð bókun sem var fylgiskjal kjarasamnings fyrir fjórum árum og fjallar um sérstaka greiðslu til handa lögreglumönnum vegna þeirrar auknu ábyrgðar sem lögð hefur verið á stéttina með aukinni skotvopnaþjálfun og auknum viðbúnaði í þeim efnum sem er gjörbreyttur frá því sem áður var. Svona mikið liggur á að efna samninga við stétt sem hefur ekki haft verkfallsvopnið um langt árabil.

Frú forseti. Landssamband lögreglumanna hefur um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Að mati þess hafa lögreglumenn dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins. Ein ástæða þess er án efa sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er, til jafns við aðrar stéttir samfélagsins, náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál stéttarinnar. Svo virðist sem það fyrirkomulag sem komið var á þegar verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn hafi aldrei almennilega gengið eftir. Í tilfelli lögreglumanna hefur það sýnt sig að afnám verkfallsréttarins hefur ýtt undir aðstöðumun aðila við kjarasamningsgerð og því brýnt að sá mikilvægi réttur verði heimtur að nýju.

Lögreglan sinnir afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramál varðar frekar en stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis starfa þeirra í samfélaginu. Eðli málsins samkvæmt yrði verkfallsréttur lögreglumanna háður þeim fyrirvara að ávallt þurfi að halda uppi neyðar- og öryggisþjónustu. Verkfallsréttur lögreglumanna myndi því sæta umtalsverðum takmörkunum. Eigi að síður er fjöldinn allur af störfum innan lögreglunnar sem væri unnt að leggja niður væri slíkt talið nauðsynlegt til stuðnings kröfum um kjarabætur. Landssamband lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á verkfallsréttinn í kjarabaráttu og hafa ýmis lögreglufélög á landsvísu ályktað í þá veru. Starfsumhverfi lögreglumanna hefur tekið miklum breytingum á umliðnum árum og gerðar eru sífellt ríkari kröfur til lögreglumanna. Mætti þar nefna fjölmargar tækninýjungar sem lögreglan hefur tekið upp við að leysa ýmis verkefni sem á borð hennar koma og ekki síður vegna þess að afbrot hafa sífellt orðið flóknari á síðustu árum. Hefur þetta leitt til þess að lögreglustarfið hefur þróast ört á síðustu árum og áratugum. Með lögum nr. 61/2016 var lögreglunám fært á háskólastig og er nú tveggja ára diplómanám í háskóla en var áður eins árs nám við Lögregluskóla ríkisins sem skilgreint var á framhaldsskólastigi. Má segja að auknar kröfur til lögreglustarfsins speglist ekki síst í þeim breytingum.

Frú forseti. Mikilvægt er að lögreglumönnum verði gert kleift að sækja sér kjarabætur með sama hætti og öðrum stéttum en þurfi ekki að sitja eftir miðað við aðrar stéttir meðan starf þeirra verður flóknara, erfiðara og kröfur til lögreglumanna aukast, bæði hvað varðar menntun þeirra, tækjakost og færni almennt, bæði tæknilega og ekki síður í samskiptum við borgarana en samsetning borgara hefur breyst frá því að vera afar einsleit og til þess að verða æ alþjóðlegri, bæði með fjölgun íbúa með annan bakgrunn en áður var auk mikillar aukningar ferðamanna hingað til lands. Lögreglumönnum verði þannig sköpuð sú sjálfsagða samningsstaða gagnvart viðsemjendum sínum sem skilað getur þeim sanngjörnum kjörum í vinnuumhverfi sínu.

Með frumvarpi þessu er lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, á þá leið að 31. gr. þeirra laga verði felld úr gildi. Lagt er til að frumvarpinu verði að loknum umræðum vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.