151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Við erum hér með mál til meðferðar sem dómsmálaráðherra hefur réttilega lýst sem svo að varði öryggi landsmanna, öryggi almennings á sjó og landi. Hún lýsir því hér í dag að þyrla sé ekki lengur til taks. Hættan og staðan ætti að vera öllum ljós. Það er staða sem er á pólitíska ábyrgð dómsmálaráðherra. Hún hefur lýst því að svona sé staðan og að lagasetningin stafi af því að hún sé upp komin. Hvað mig varðar er það algjörlega skýrt að það er pólitísk ábyrgð dómsmálaráðherra að við erum hér stödd í dag að slökkva þann eld sem nú logar.

Mín spurning til dómsmálaráðherra varðar ummæli sem fram komu á Vísi í dag þar sem flugvirkjar lýsa því yfir að ráðherra hafi ekki á neinu stigi málsins haft samband. Það er alvarlegt mál en mjög skiljanlegt í ljósi aðstæðna að stíga inn með lagasetningu. En það er mjög alvarlegt ef rétt er að dómsmálaráðherra hafi á engu stigi málsins haft samband með það fyrir augum að leysa málið áður en þessi alvarlega staða kom upp og ég spyr ráðherra þess vegna hvort það sé rétt að það hafi ekki verið gert.