151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hv. þingmaður sem snýr út úr orðum mínum um dag til eða frá. Ég var ekki að ræða um öryggi fólks eða mikilvægi þess að björgunarþyrlur séu ávallt til taks. Það er verkefni mitt. Þar ber ég ábyrgð og þess vegna stend ég hér í dag með þetta lagafrumvarp, af því að samningaviðræður strönduðu í gær. Þær strönduðu í gær og þá var það fullreynt. Þess vegna tel ég rétt að koma með þetta frumvarp í dag og fá það samþykkt, sem ég vona innilega að gerist, til þess að hægt sé að tryggja til lengri tíma að ekki verði þau áhrif sem þetta verkfall gæti haft á starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Það er búið að leita allra leiða til að minnka þann skaða sem þetta verkfall gæti haft á starfsemi Landhelgisgæslunnar og hún hefur unnið gríðarlega gott verk í að koma því þannig við, því að við vitum hve mikilvæg björgunargeta Gæslunnar er, hversu mörgum mannslífum þessi starfsemi hefur bjargað og hversu mikilvæg hún er og að verkfall eigi ekki að geta haft áhrif á öryggis-, björgunar- og löggæslustarfsemi Landhelgisgæslunnar eins og markmiðið var í lögunum. En lögin tryggðu ekki að þetta gæti ekki komið upp. (Gripið fram í.) Hér erum við því að ræða lög sem skipta máli fyrir hvern dag sem gæti komið upp í desember og janúar og febrúar.

Ég tel einfaldlega ekki réttlætanlegt á grundvelli markmiðs laganna frá 2006 að ein stétt geti nýtt sér þennan rétt og sett Gæsluna í þessa stöðu. En ég taldi þó rétt, fyrst þeir hafa þann rétt, að sjá samningaviðræðurnar fara í strand, að sjá þá neita þeim tilboðum og þeirri sátt sem var reynt að leita, sem er rétt að gera fyrst, og leita allra leiða til að tryggja öryggi fólks í leiðinni. Það sigldu í strand. Þess vegna erum við að fara að setja lög til að tryggja það að flugvirkjar geti sem allra fyrst farið að sinna sinni mikilvægu vinnu, þannig að loftför Gæslunnar og vinnan þar beri ekki skaða af.