152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:37]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa góðu umræðu og þakka málshefjanda fyrir góða samantekt og yfirferð. Í mínum huga er hér lýðheilsa í húfi. Ein af sterkustu kenningum í heilsufæðisheimum er kenningin um makróbíótík. Til að halda heilsu og orku og öðlast langlífi skulum við velja okkur það sem vex náttúrlega í okkar nærumhverfi. Það getur verið rótargrænmeti eða það sem hér er átt við. Við sjáum heilbrigðiskerfið okkar að sligast, þau eru að nálgast hálfan milljarð, held ég, útgjöld vegna heilbrigðismála á Íslandi. Kynni að vera samhengi á milli þess og þess sem mannfólkið setur í sig með öllum þeim framlengingarefnum, öllu því sem sett er af e-efnum og alls kyns hlutum sem eru í þágu framleiðandans en ekki neytandans? Kynni þetta að taka sér bólfestu og valda verkunum sem ekki er búið að sýna fram á með óyggjandi hætti? Lýðheilsan ætti að vera okkur efst í huga og hér ætti að vera kleift að stunda mun öflugri og meiri grænmetisframleiðslu en verið hefur. Mér sýnist nú landbúnaðarráðherra vera að vekja máls á því, bara í dag, einhverju sem Inga Sæland hefur talað um árum saman. Munum að Landsvirkjun og allar þessar virkjanir voru settar á fót með fyrirheitum, okkur var m.a. talin trú um að kostnaðurinn af þessu myndi smám saman niðurgreiðast, þá einkum og sér í lagi af erlendum kaupendum, álframleiðslufyrirtækjunum og fleirum, og þannig myndu íslenskir neytendur fá mjög hagfellt verð þegar niðurgreiðslu væri lokið. Þessu hefur verið sópað undir teppið, þessum fyrirheitum fyrri tíma. Ég er nógu fullorðinn til að muna þetta. Ég held því miður að fyrirmæli Evrópusambandsins um hvað við mættum og mættum ekki í raforkumálunum, það að skipta heildsölu og smásölu með þeim hætti að yfirbygging varð meiri og dýrari, hafi valdið því að orkuverðið sé allt of hátt miðað við það sem ætti að vera. Nú er einn af meginkostum þess að búa á Íslandi sú græna orka sem streymir upp úr iðrum jarðar og úr fallvötnunum. En sannarlega ættu og mættu íslenskir blómabændur og grænmetisbændur og allir bændur njóta þess í annars nokkuð harðbýlu landi að fá orkuna á algjöru kostnaðarverði og geta framleitt ofan í okkur lífrænt makróbíótískt fæði í sem allra mestu magni og til útflutnings að auki.

Þá kem ég að því sem ég tel vera lykilatriði hér, að við horfum til þjóða sem hafa náð árangri í matvælaframleiðslu, gæðaframleiðslu og „bröndun“ hennar á heimsvísu. Lítum til Frakklands, lítum til allra Brie-framleiðendanna og kampavínsframleiðendanna og allra þeirra matvæla sem þar eru framleidd og hafa verið sett í hágæðaflokk, eftirsóknarverðan flokk, þar sem verð speglar fyrirhöfnina og framleiðslugæðin. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að skoða mjög alvarlega, ég veit að það hafa verið gerðar tilraunir með þetta og viðleitni auðvitað, stýrt úr Bændahöllinni í gegnum tíðina. Við sjáum ágætisárangur í skyrútflutningi núna en ég held að við ættum að horfa á „bröndun“, vörumerkjun íslenskrar landbúnaðarframleiðslu sem vannýtt tækifæri sem þurfi að stórefla og huga að. Að sjálfsögðu vil ég eins og málshefjandi, og að ég held við flest, sjá blómlegan búskap um land allt því sú meginbúgrein sem ferðaþjónustan er orðin á Íslandi er að sjálfsögðu nátengd því að hér sé blómleg byggð um land allt, aðdáunarverður búskapur á myndarlegum býlum sem framleiða hollmeti sem eflir lýðheilsu og bætir og vænkar hag.