152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

142. mál
[18:45]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég er í meginatriðum sammála því. Við þurfum að tryggja öflugan íslenskan landbúnað, helst með lífrænni vottun. Hún er, held ég, í mörgum tilfellum innbyggð í íslenskan landbúnað og ég segi fyrir mína parta að ég treysti íslenskri matvælaframleiðslu mun betur en því sem viðgengst í fjöldaframleiðslunni á erlendum vettvangi. Ég hef horft á mörg hryllileg myndskeið af því hvernig t.d. grísum er hent ofan í hakkavél lifandi og ég missti alla lyst á grísakjöti fyrir vikið. Eins og ég sagði áðan er massaframleiðsla á matvælum jafnan seld í sjónvarpsauglýsingum, í hillum súpermarkaðanna á heimsvísu, án þess að við séum nægilega vel upplýst eða meðvituð um hvað hefur verið sett saman við, hvaða hagsmunir framleiðenda eru þar algerlega í fyrirrúmi og hvaða áhrif það hefur á okkur sem innbyrðum. Það tekur til dósamatar og tekur til allra mögulegra framleiðsluvara, meira að segja innflutts grænmetis á borð við agúrkur frá Portúgal þar sem verið er að nota skordýraeitur sem er strangt til tekið bannað.

Í grundvallaratriðum er ég því heils hugar sammála, óháð öllum tískustraumum og óháð öllum deilum um votlendi versus skurði eða hvað það nú er. Ég trúi á áframhaldandi öflugan íslenskan landbúnað og er tilbúinn að gjalda hann dýrara verði en innflutta vöru vegna þess að hún er framleidd við aðstæður sem ég þekki og kann að meta. Ég treysti íslenskum bændum einfaldlega til þess að hafa hag okkar neytenda í fyrirrúmi.

(Forseti (LínS): Forseti minnir þingmenn á viðeigandi ávarp við upphaf ræðu.)