152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður var kannski einmitt að lýsa meininu. Það er auðvitað vegna yfirburða ríkissjónvarpsins á auglýsingamarkaði sem einkaaðilar, frjálsar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, geta ekki boðið þeim sem eru að auglýsa, eins og t.d. hv. þm. Tómasi A. Tómassyni, það sama og Ríkisútvarpið getur. Það er það sem er meinið. Ég hef hins vegar lagt eitt til sem kemur þessu máli ekki við: Við, almenningur, setjum 5.000 milljónir í Ríkisútvarpið, og síðan eru auglýsingar. Af hverju búum við ekki til dagskrársjóð? Af hverju setjum við ekki allar þessar 5.000 milljónir í dagskrársjóð sem dagskrárgerðarmenn og kvikmyndagerðarmenn um allt land geta sótt í og fengið að búa til sitt efni, í staðinn fyrir að reka hér eitt bákn sem heitir Efstaleiti? Haldið þið nú að það yrði ekki blómlegri kvikmyndagerð á Íslandi ef til yrði 5.000 milljóna kr. sjóður til að stuðla að og ýta undir dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, hlaðvörp, út um allt land? Ég held að þetta væri kannski það skref sem við ættum að stíga næst. Ég ætti kannski, hæstv. forseti, að leggja slíkt frumvarp fram og þá gætu þeir félagar, Tómas A. Tómasson og Jakob Frímann Magnússon, komið með mér í þá vegferð. Ég veit að áhugi meðal listamanna og dagskrárgerðarmanna og sérstaklega kvikmyndagerðarmanna fyrir slíku er mikill.