152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

greining á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum.

241. mál
[19:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Ólöfu Isaksen fyrir yfirferðina yfir þetta mjög svo þarfa mál. Hér er nýtt orð á ferðinni og ég skal viðurkenna að ég hafði ekki heyrt það áður en það birtist mér í þessu máli. Þetta er rétt eins og þegar kynnt var til sögunnar vitundarvakning um vélindabakflæði. Það tók dálítinn tíma að venjast bæði orðinu vitundarvakning, sem þá var nýtt, og orðinu vélindabakflæði, en hvort tveggja kemur úr munni Jóns Þorvaldssonar hins orðhaga.

Ég er innilega sammála því að hér sé afar brýnt og tímabært mál á ferðinni því að það er auðvitað horft til hins göfuga starfs læknisins, hjúkrunarkonunnar og heilbrigðisstarfsfólksins með virðingu og aðdáun. En yfirleitt er athyglin á þeim sem þurfa á hjálpinni að halda; sjúklingunum, og gleymist stundum að umönnunarfólkið lendir stundum í því að þurfa að miðla sinni eigin orku oftar en ekki til þeirra sem eru bágstaddir og orkulitlir. Og það er mjög raunveruleg hætta á því að mínu mati, sérstaklega á viðvarandi faraldurstíma eins og núna er, sem senn er að teygja sig á þriðja ár, að margir séu langþreyttir og eigi hreinlega mjög erfitt í okkar annars mjög góðu heilbrigðisstarfsmannastétt. Þess vegna vil ég lýsa eindregnum stuðningi við að þessi starfshópur komist á hið allra fyrsta. Ég er nokkuð sannfærður um að niðurstöðurnar muni koma okkur óþægilega á óvart og þá skulum við bregðast við því snarlega.