Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Við heyrum ítrekað vitnað til 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þar segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun kvótans myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstaklinga yfir veiðiheimildum. Því er gjarnan fleygt í umræðunni að þetta sé í raun marklaust ákvæði, einhvers konar skraut og kruðerí, nánast eins og inngangur að sjálfri bókinni, sem eru þá lögin sjálf. Þetta standi vissulega þarna en í raunveruleikanum séu það aðrir en þjóðin sem eigi þarna ríkustu hagsmunina. Við þessu er bara eitt svar: Þetta er lagagrein en ekki formáli eða merkingarlaus inngangur. Þetta er 1. gr. laga.

Í 1. gr. laga um fjölmiðla kemur skýrt fram að markmið laganna sé að stuðla að tjáningarfrelsi og rétti fólks til upplýsinga. Tjáningarfrelsi er grundvallarhugtak í okkar samfélagi og rétturinn til upplýsinga er auðvitað þar samofinn. Þetta er hornsteinn frjáls og lýðræðislegs samfélags. Í síðustu viku leið sennilega stórum hluta þjóðarinnar eins og fyrir 1. gr. fjölmiðlalaganna væri komið eins og 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, hún orðin andlag útúrsnúnings og afbökunar og þætti jafnvel merkingarlaus. Eða hvað á maður að segja um rétt almennings til upplýsinga og sjálft tjáningarfrelsið í landi þar sem fjölmiðlar eru gróflega hindraðir í störfum sínum við að segja frá því þegar stjórnvöld framkvæma vald sitt við brottvísanir á hælisleitendum frá Íslandi í hörmulegar aðstæður í Grikklandi? Í hvers konar löndum þykir eðlilegt að koma í veg fyrir myndatöku fjölmiðils með því að lýsa sterkum ljóskösturum að myndavélum ítrekað og einbeitt? Ástæða þess að þetta var gert er eingöngu sú að einhverjum á vettvangi fannst eðlilegt að almenningur sæi ekki aðfarirnar. Engin önnur skýring er möguleg. Ekki er síður óþægilegt að enn er allt á huldu um það hver tók þessa ákvörðun. Isavia bendir á lögreglu, lögreglan segir að þetta hafi ekki verið ætlunin og vill halda fund um málið. Það er gott og blessað að funda en það hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa okkar að það verði gert opinbert hvernig svona gat farið. (Forseti hringir.) Virðingarleysi og/eða skilningsleysi á störfum fjölmiðla í þessum aðstæðum er ekki hægt að líða.