Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Elín Anna Gísladóttir (V):

Virðulegur forseti. Nýleg könnun Maskínu sýnir að fleiri og fleiri vilja aukið frelsi á leigubílamarkaðnum. Jafnvel stórnotendur þjónustunnar vilja sjá breytingar. Það er merkilegt að þegar notendur þjónustunnar vilja breytingar, þegar íslenska ríkið hefur fengið áminningu frá ESA um að íslenska löggjöfin feli í sér óréttmæta takmörkun á staðfesturétti og brjóti þannig í bága við EES-samninginn, þá eru stjórnvöld enn ekki tilbúin til að hlusta. Hvar er þetta frelsisfólk sem barði sér á brjóst um síðastliðna helgi?

Staðreyndin er sú að þessi mál snúast ekki lengur um frelsi. Þetta er líka orðin spurning um öryggi. Það er allt of oft sem ekki er hægt að fá leigubíla. Drukkið fólk gefst upp á biðinni og keyrir jafnvel heim á bílnum sínum sem stóð til þess að skilja eftir. Oft finnst manni að einu rök þeirra sem standa í vegi fyrir frelsi á leigubílamarkaði séu að það sé svo hættulegt að hver sem er geti sinnt þessari þjónustu. En staðreyndin er að fólk er að leita inn á svartan markað þar sem þjónustan sem nú er í boði annar ekki eftirspurninni. Hver sem er getur því núna skutlað fólki.

Ef við hleypum svokölluðum farveitum inn á markaðinn þá væru ferðir skráðar. Fólk hefði val um mismunandi bíla, tegund bílstjóra og gæti kannað hversu góður bílstjórinn sem það pantar er og vissi fyrir fram hvert verðið væri. Hvað er slæmt við það? Ég held jafnvel að farveiturnar hafi meiri burði til þess að koma svörtum sauðum úr þessu starfi en leigubílafyrirtækin hafa í dag.

Viðreisn hefur ítrekað lagt fram breytingar á lögum um leigubifreiðar en lukkuriddarar frelsisins standa í vegi fyrir því einfalda frelsismáli. Hagsmuna hverra eru þeir að gæta? Ekki almennings.