Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í Egyptalandi er hafin loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, oftast kölluð COP27 af því að hún er sú 27. í röðinni. Þar sagði aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, á fyrsta degi: Ríki heims eru á hraðferð lóðbeint til helvítis. Ef ekki er gripið til neyðaraðgerða strax til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, já, þá er það rétt hjá aðalframkvæmdastjóranum. Þá erum við að fara lóðbeint í hamfarirnar, sem eru reyndar hafnar. Hamfarahlýnun er af mannavöldum og það er mannanna verk að koma í veg fyrir að þær verði verri en þegar er orðið.

Efist menn um það sem er að gerast þá ráðlegg ég þeim að lesa og glugga í nýjustu skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er hægt að lesa töflur sem segja til um það hvað gerist við 1° hlýnun, 1,5° og 2°, 3° o.s.frv. Það er bara einfalt að lesa sér til um það í þessum töflum. Þessar töflur sýna okkur nákvæmlega hvað hefur verið að gerast og hvað er að gerast og á hverju við eigum von. Eitt af því sem þar er bent á eru fólksflutningar. Fólk er á flótta vegna hnignandi jarðargæða, vegna þurrka, vegna veðuröfga, vegna hækkunar sjávarborðs o.s.frv. og eitthvert leitar það fólk. Jú, það leitar þangað sem það heldur að það geti fundið betri lífsgæði, betra líf og velsældina sem við búum við. Þannig að ef hv. þingmenn halda að 100 milljón flóttamenn í heiminum séu há tala þá held ég að þeir ættu að lesa þessar skýrslur til enda og gera sér grein fyrir því að ef hamfarahlýnunin verður ekki stöðvuð verða þeir miklu fleiri og mörg þeirra munu koma hingað, að sjálfsögðu.