Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

umfjöllun nefndar um brottvísanir hælisleitenda.

[14:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Þetta er gagnleg umræða þótt hún sé undir þessum lið. Ég vildi nefna hérna, út frá því sem hv. þm. Birgir Þórarinsson var að tala um, að eitt eru réttindi á blaði og í orði, annað eru réttindi á borði. Alveg eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan hafa Rauða krossinn og mörg önnur mannúðarsamtök skrifað ítarlegar greinargerðir og úttektir á því hvernig komið er fyrir fólki sem er þegar komið með vernd í Grikklandi. Það hefur mikil réttindi í orði en ekki á borði. Fæst börnin komast í skóla. Fólk á mjög erfitt með að fá atvinnu. Fólk á mjög erfitt með að komast inn í félagslega kerfið, m.a. vegna þess að það vantar túlka, líka vegna þess að það eru alls konar girðingar inni í kerfinu sjálfu. Það er fullt af svona atriðum sem gera það að verkum að fólk sem þegar er komið með vernd í Grikklandi endar á götunni en fær ekki þau réttindi sem það þó á að njóta.

Þá er spurningin: Hvernig ætlum við að takast á við það? Ætlum við frekar, þegar við erum að hugsa um mannréttindi fólks, að velta því fyrir okkur hvernig þetta er á pappír eða hvernig þetta er í raunveruleikanum? Ef við erum farin að kvarta hér á Íslandi (Forseti hringir.) yfir því að kerfið okkar sé komið að þolmörkum hvernig (Forseti hringir.) er það þá í Grikklandi? Hvernig er það þá í löndunum (Forseti hringir.) sem fá allt fólkið til sín bara út af landfræðilegri legu? Þetta er eiginlega ekki boðlegur málflutningur.