Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu.

[14:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég má til með að taka undir með hv. þm. Ingu Sæland. Íslenska þingið er gestgjafi þess fundar sem stendur nú í Hörpu. Íslenskar þingkonur eru hvattar til að taka virkan þátt. Annaðhvort eiga þær að þekkjast það boð og vera úti í Hörpu og skrópa hér eða mæta hér eins og lög gera ráð fyrir, taka þátt í umræðu og skrópa þar. Þetta bara passar ekki saman. Allar hugmyndir um að láta þingið ganga sinn vanagang þegar vantar helming þingmanna meika bara ekki sens, því það sem gerir þessa málstofu að því sem hún er, er einmitt að við séum með ólík sjónarmið, ólíkar raddir og sem flestar hér innan húss en ekki að við séum að halda dagskrá gangandi með hálfan mannskapinn fjarverandi. Að því sögðu þá gerir ríkisstjórnin okkur það auðvitað dálítið auðvelt að vera með létta og löðurmannlega dagskrá þessa dagana, (Forseti hringir.) það er ekki búið að leggja fram mörg stjórnarmál, alls ekki jafn mörg og til stóð, þannig að það liggur ekki mikið fyrir þessu þingi. (Forseti hringir.) En þá hefði kannski mátt endurskoða starfsáætlun og fella niður þingfundi eða í það minnsta hafa þá mjög stutta.

(Forseti (LínS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)