Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

215. mál
[14:53]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég legg þetta mál fram í fjórða eða fimmta sinn og sá ástæðu til að halda því áfram ásamt góðum hópi meðflutningsmanna. Ég tel það nefnilega varða grundvallaratriði lýðræðisins og mikilvægi þess að Alþingi verji lýðræðið. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að rangt hafi verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum, sbr. 706. mál á 138. löggjafarþingi, sem samþykkt var að hluta sem þingsályktun nr. 30/138 hinn 28. september 2010. Viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni vegna þessa.“

Í sem stystu máli snýst málið um málshöfðun og tilraun þingsins til málshöfðunar gegn fyrrverandi ráðherrum vegna bankahrunsins á sínum tíma. Í greinargerð birtist rökstuðningur í fjórum liðum og ég ætla að lesa hann, með leyfi forseta:

„1. Niðurstaða landsdóms sýnir að ekki var tilefni til ákæru.

2. Ekki hefur verið gætt samræmis við beitingu laga um landsdóm þar eð lögunum hefur ekki verið beitt í öðrum tilvikum er varða stjórnmálalegar ákvarðanir og aðgerðir sem stefnt hafa hagsmunum ríkisins í hættu.

3. Atkvæðagreiðsla um málshöfðun bar merki þess að niðurstaða um það hverja skyldi ákæra hefði annaðhvort verið tilviljanakennd eða skipulögð eftir flokkspólitískum línum. Mikilvægt er að árétta að dómsvaldi megi aldrei beita í pólitískum tilgangi.

4. Lýðræðislegu stjórnarfari landsins stendur ógn af því ef reynt er að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda til fangelsisvistar vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis án þess að um hafi verið að ræða ásetning um brot. Ýmsar stjórnmálalegar stefnur og ákvarðanir, eða aðgerðaleysi, geta verið skaðlegar hagsmunum ríkisins án þess að ætlunin hafi verið að valda tjóni. Slíkt álitamál ber að leiða til lykta í kosningum en ekki fyrir dómstólum.“

Eins og ég gat um í byrjun, frú forseti, þá hef ég lagt þetta mál fram nokkrum sinnum áður og í hvert skipti hefur það verið látið daga uppi í nefnd af einhverjum illskiljanlegum ástæðum því að þetta er mikið grundvallarmál. Ég var ekki stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem hér er vísað til eða ráðherra þeirrar ríkisstjórnar, hvorki úr Sjálfstæðisflokki né Samfylkingu, þvert á móti. Ég hóf þátttöku í stjórnmálum með mjög harðri gagnrýni á þá ríkisstjórn og taldi að hún ætti að fara frá, sem varð svo raunin. En mér þótti þá og hefur ætíð þótt fráleitt að þeir sem þá tóku við völdum, í ljósi aðstæðna á þeim tíma, skyldu nýta sér þau völd til að reyna að fá fyrrverandi ráðherra dæmda til fangelsisvistar án þess að sýnt væri fram á það á nokkurn hátt að þeim ráðherrum hefði gengið nokkuð illt til með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi. Þeir hefðu einfaldlega ekki fylgt þeirri stefnu sem hefði kannski skilað betri árangri eða ekki brugðist við í samræmi við tilefnið, en slíkt er auðvitað algengt, því miður, með stjórnvöld, að þau bregðist ekki við í samræmi við tilefnið eða framfylgi stefnu sem reynist á endanum skaðleg. Fyrir það á ekki að refsa fyrir dómstólum. Það á að refsa fyrir það í kosningum.

Ég hef orðið var við það frá upphafi þessa máls að misskilnings hefur gætt um hvernig til þess var stofnað og hvers eðlis það var. Sumir hafa t.d. haldið og halda kannski enn að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi verið ákærður fyrir brot á lögum um landsdóm. Þetta mál lýtur vissulega að landsdómsmálinu en ráðherrann og ráðherrarnir fyrrverandi, hvað varðar tilraunir til að ákæra þá, voru ekki kærðir fyrir brot á lögum um landsdóm. Fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, var ákærður fyrir brot á almennum hegningarlögum. Þetta olli nokkrum misskilningi, leyfi ég mér að segja, í umræðu um málið á sínum tíma og eimir enn eftir af því í dag þegar til að mynda annar fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, vakti athygli á því ásamt félögum sínum að ráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, hefði lagt til að gerðar yrðu breytingar á lögum um landsdóm og því stillt upp þannig að það væri óheppileg afleiðing af því að ekki hefði verið brugðist við þeim tillögum á sínum tíma. En svo ég segi það aftur: Ráðherrann var ekki ákærður fyrir brot á lögum um landsdóm. En hverjar voru tillögur Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma um breytingar á lögum um landsdóm? Þær voru þvert á það sem kannski hefði mátt ætla af umræðunni, þ.e. að lögin væru ekki nógu afgerandi, gerðu mönnum ekki nógu vel kleift að ákæra ráðherra. Landsdómsfyrirkomulagið væri þess vegna fyrirstaða, það þyrfti að vera auðveldara að ráðast í pólitísk réttarhöld og tillögurnar voru meira að segja svo brjálæðislegar að því var velt upp að minni hluti þingmanna gæti ákveðið að ákæra ráðherra og þingið myndi auk þess skipa sína eigin dómara. Minni hluti þingsins gæti ákveðið að ákæra ráðherra og þingið skipaði eigin dómara — þetta gengur gegn grundvallarreglum lýðræðis- og réttarríkis. Þess vegna legg ég þetta mál fram eina ferðina enn, ekki vegna þessarar tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem náði ekki í gegn, heldur vegna þess að það var reynt að nota þessi lög um landsdóm til að ákæra fyrrverandi ráðherra fyrir pólitískar gjörðir eða aðgerðaleysi.

Það er hættulegt ef til verður slíkt fordæmi. Hættan verður sú að í hvert skipti sem stjórnarskipti verða, og friðsamleg skipti stjórnvalda eru auðvitað grundvallaratriði í lýðræðisríki, þá fari menn að hefna ófara annarra í framhaldinu og dómharka aukist og flokkadrættir fyrir vikið. Þetta snýst því í raun um að verja þau grundvallargildi sem hafa gert okkur Íslendingum kleift að reka hér tiltölulega friðsælt lýðræðislegt stjórnarfar áratugum saman.

Ég hef ítrekað farið yfir málið í meiri smáatriðum. Ég ætla ekki að rekja öll þau atriði sem ég hef nefnt í fyrri ræðum um þetta mál. En þetta eru meginskilaboðin. Við verðum að tryggja, þó að þessi ár séu liðin, þó að málið hafi verið látið niður falla eða deyja í nefndum þetta oft, að þetta verði ekki fordæmi sem núverandi ríkisstjórn eða aðrar ríkisstjórnir þurfa að sitja undir. Ef þetta á að vera fordæmið þá munu menn væntanlega, margir hverjir, sumir, vilja láta eitt yfir alla ganga. Ég hvet því þingmenn og nefndina sem fær þetta til umfjöllunar til að klára þetta mál og fylgja því eftir, fá álit þeirra sem rétt er að leita til en klára svo málið og lýsa því yfir að Alþingi telji óásættanlegt að stefnt sé til pólitískra málaferla.

Ég nefndi það hér áðan að ég er ekki pólitískur stuðningsmaður þeirra sem hér eiga í hlut. Ég legg þetta fram eina ferðina enn, einfaldlega vegna þess að ég lít á þetta sem prinsippmál. Ég var ósammála ríkisstjórninni á sínum tíma, ég taldi að hún ætti að fara frá, en mér fannst fráleitt að ráðherrar hennar yrðu dregnir fyrir dómstóla af þeim sökum. Og svo mætti auðvitað, eins og ég hef nú gert nokkrum sinnum þegar ég hef rætt þetta mál, rekja atburðarásina í kringum það hvernig staðið var að atkvæðagreiðslu um málið hér í þinginu á sínum tíma, að því er virtist til að tryggja að aðeins einn — eða væntanlega voru markmið um að tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokks færu fyrir landsdóm — færi fyrir dóm en ekki aðrir.

Ég vona, svo að ég ítreki það nú, að þetta mál verði ekki látið hverfa eina ferðina enn. Frá því ég lagði málið fram fyrst hefur þingið tekið ákvarðanir, þar með talið þingmenn þeirra flokka sem málið varðar, þar með talið þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ekki hvað síst, sem voru andlýðræðislegar, jafnvel í andstöðu við stjórnarskrá, til að ná höggi á pólitíska andstæðinga; beita pólitísku valdi óháð lögum, jafnvel stjórnarskrá, til að ná höggi á pólitíska andstæðinga. Engu að síður ætla ég að halda áfram að leggja þetta mál fram því að þótt menn komi óheiðarlega fram, eins og margir hv. þingmenn hafa gert við ákveðin tilefni, gangi gegn lögum og lýðræðislegum reglum, má ekki láta það verða til þess að maður missi trúna á að hægt sé að hafa þetta almennilegt hér á þinginu.

Ég legg því þessa þingsályktunartillögu fram eina ferðina enn og geri tillögu um að hún gangi nú til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.