Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

215. mál
[15:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. flutningsmönnum kærlega fyrir að setja þetta mál á dagskrá og þakka fyrir þær ræður sem hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birgir Þórarinsson hafa flutt. Ég get tekið heils hugar undir mjög margt af því sem þar hefur komið fram. Ég var ekki í stjórnmálum þegar þetta allt saman gekk á, en fylgdist að sjálfsögðu með þjóðmálum og öllu því sem gekk á, bæði í hruninu og í eftirleiknum öllum þar sem oft var verið að gera upp mál í mikilli reiði. Það voru eðlilega allir reiðir eftir hrunið. Í því andrúmslofti var þessi málarekstur einhvern veginn allur.

Það sem ég vildi kannski gera að umtalsefni í ræðu minni, bara stutt, er það að það er alveg með ólíkindum og stenst auðvitað enga skoðun, jafnvel þótt það standi í stjórnarskránni — þá verð ég að segja: Það á ekki að vera í stjórnarskránni — að Alþingi hafi eitthvert vald til þess að ákæra. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og þá er kallað til landsdóms, segir efnislega um þetta í stjórnarskránni. Hvers konar kerfi erum við þá með? Þá erum við með kerfi sem einmitt getur, í andrúmslofti reiðinnar, skapað þann freistnivanda hjá stjórnmálamönnum að draga pólitíska andstæðinga sína fyrir dóm. Og eru þingmenn á hverjum tíma réttu aðilarnir til að gera það? Ég segi nei við því, mjög eindregið.

Ég hef tekið eftir því að þegar kemur að ýmsu sem lýtur að þingmönnum og starfinu í þinginu hafa menn reynt að búa til einhver armslengdarsjónarmið, þ.e. þegar kemur að beinum hagsmunum þingmanna. Við getum nefnt fyrirkomulag til að ákvarða launakjör þeirra. Við getum líka nefnt umræðu um það hve mörgum þótti óeðlilegt að þingmenn væru sjálfir í þeirri stöðu eftir Borgarnesævintýrið allt, eftir síðustu kosningar, að þurfa að meta hvort þeirra eigin kjörbréf væri gilt þegar verulegur vafi lék á því og búið að boða alls konar málarekstur vegna þess og annað. Þetta er auðvitað staðan með þetta mál. Hér erum við að setja þingmenn í þá stöðu og í þann freistnivanda að geta efnt til einhvers konar réttarhalda yfir pólitískum andstæðingum sínum.

Þegar kemur síðan að ákæruvaldinu sjálfu þá er það ekki bara freistnivandi fyrir þá sem vilja ákæra pólitíska andstæðinga. Það er auðvitað ekki hægt að segja um þá sem hinum megin eru að þeir séu endilega eitthvað sérstaklega hlutlausir þegar að því kemur að leggja mat á hvort ákæra eigi samherja þeirra eða ekki. Þetta kerfi, þótt það sé nú rígneglt í stjórnarskrá, er alveg meingallað.

Ég vil líka nefna það sem hér hefur verið rætt um, og tek það aftur fram að ég horfði á þetta utan frá, af hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér og vitnað til þess sem kemur fram í tillögunni sjálfri, í greinargerðinni, þ.e. að atkvæðagreiðsla um málshöfðun hafi borið þess merki að niðurstaða um það hverja skyldi ákæra hefði annaðhvort verið tilviljanakennd eða skipulögð eftir flokkspólitískum línum. Við þurfum auðvitað ekkert að rifja þetta eitthvað sérstaklega mikið upp. Í raun og veru er það minn punktur hér að það skipti í sjálfu sér ekki öllu máli hvort menn hafi hegðað sér með óeðlilegum hætti þegar til atkvæðagreiðslunnar kom eða ekki. Það er bara þessi spurning sem er þarna úti í samfélaginu: Hvernig getur þetta verið sanngjörn leið? Hvernig getur það verið? Hvernig getum við treyst því að þarna séu menn algerlega með réttlætið að leiðarljósi en ekki með eitthvert pólitískt agenda í bakhöndinni þegar verið er að greiða atkvæði. Við hljótum alltaf að reyna að forðast allar slíkar gryfjur þegar kemur að störfum þingsins og slíkar gildrur eiga ekki að vera í stjórnarskránni sem segir okkur enn og aftur að þar eru ýmis ákvæði sem eru kannski barn síns tíma og standast ekki alla skoðun.

Mér finnst þetta vera spurning um almenna skynsemi, fyrirkomulagið sem við höfum á þessu. Þetta stenst ekki almenna skynsemi. Þetta stenst ekki þær kröfur sem við hljótum að gera til þess að þeir sem ákveða einhvern málarekstur, hafa með höndum einhvers konar ákæruvald, að þeir séu hafnir yfir allan vafa, að þeir séu alveg örugglega hlutlausir, að ekki sé hægt að væna þá um að vera í einhverjum pólitískum hráskinnaleik. Ég ætla í sjálfu sér ekkert endilega að taka einhverja afstöðu til þess hvort það hafi verið þótt margt hafi vissulega verið sérkennilegt þegar atkvæðagreiðslan fór fram heldur bara gagnrýna það að við séum sett í þá stöðu að þurfa raunverulega að vera með þetta í kollinum. Er þetta rétt? Er þetta sanngjarnt? Eru menn raunverulega að gera þetta af fyllstu hjartans sannfæringu eða býr eitthvað annað að baki? Það er einfaldlega ekki hægt að skilja þennan vafa frá þegar fyrirkomulagið er með þeim hætti sem er í þessu tilviki.

Ég tek heils hugar undir margt af því sem hér hefur verið sagt og árétta að mér finnst þetta vera spurning um að þetta verklag eigi ekki að vera einhvers konar fyrirmynd inn í framtíðina. Við skulum heldur ekki vera svo barnaleg að halda að ekki geti myndast aftur annað eins ástand í samfélaginu og var hér í kringum hrunið og upp úr hruni. Vísa ég þá sérstaklega til þess sem við erum að horfa upp á í Bandaríkjunum, sem er auðvitað rótgróið lýðræðisríki, en pólaríseringin þar og uppgangur ákveðinna afla þar, það hvernig menn neita að viðurkenna tilvist kosninga og annað, segir okkur bara að lýðræði, sanngirni, réttar leikreglur og allt þetta sem við viljum halda í heiðri hér — það getur alltaf molnað undan því. Þá er einmitt hægt að nota þessa leið, sem því miður er bundin í okkar stjórnarskrá, til að hafa rangt við.

Ég ætla að þakka hv. þingmönnum sem flytja þetta mál fyrir að gera það. Það er full ástæða til að taka þetta mál lengra og ræða það betur.