Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:14]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir framsöguna á þessari þingsályktunartillögu um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála. Ég tel að hér sé um mjög áhugaverða tillögu að ræða og það sé kominn tími til að við stofnum sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál. Mér finnst 1. málsgreinin í greinargerðinni sérstaklega áhugaverð, en hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Lýðræðisríki læra og laga sig að breyttum veruleika. Þann styrk verður íslenska þjóðin að nýta sér í þágu eigin öryggis á grundvelli þekkingar sem reist er á fræðilegum grunni og fenginni reynslu.“

Ég tel að slík stofnun, ef af verður, ef gerður verður samningur við Alþjóðastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur, myndi styrkja fræðilega grunninn sem er mjög mikilvægt. Sjálfstæð fræðileg rannsóknavinna er mjög mikilvæg og samvinna er líka mjög mikilvæg. Að fenginni reynslu tel ég líka mikilvægt, og velti því upp hér, að starfsmenn utanríkisráðuneytisins, sendiherrar og aðrir starfsmenn með mikla reynslu, gætu átt aðgang að stofnuninni.

Í greinargerðinni segir vissulega, með leyfi forseta:

„Starfsmenn ráðuneyta og stofnana geti nýtt setrið til að dýpka eða víkka þekkingu sína.“

Þetta les ég þannig að þeir myndu þá geta farið á námskeið og aflað sér þekkingar og annað slíkt. Ég tel líka mikilvægt að starfsmenn utanríkisráðuneytisins, sendiherrar og aðrir slíkir, sem eru kannski komnir með mikla starfsreynslu og á ákveðinn aldur, gætu jafnvel farið í starfsleyfi til þessarar stofnunar í eitt eða tvö ár til að sinna fræðistörfum, til að skrifa bækur um öryggis- og varnarmál. Það þurfa ekki endilega að vera bækur um öryggis- og varnarmál en ég nefni það bara í sambandi við þetta mál. Það mætti líka vera aukin samvinna milli utanríkisráðuneytisins og Alþjóðastofnunar til að efla fræðilega þekkingu í ráðuneytinu þar sem við notum reynslu okkar sem smáþjóð hvað þetta varðar.

Við getum vissulega sagt að tengsl milli stjórnsýslu og háskóla geti haft áhrif á óhæði slíks rannsóknaseturs en ég tel að það væri til mikils að vinna fyrir Ísland ef samgangur myndi aukast á milli stjórnsýslunnar og starfsfólks utanríkisráðuneytisins hvað þetta varðar. Þá er ég ekki eingöngu að tala um öryggis- og varnarmál heldur almennt. Það væri mjög áhugavert og ég efast ekki um að starfsmenn myndu gjarnan vilja geta breytt um starfsvettvang í eitt eða tvö ár til að sinna fræðistörfum svo að það liggi fyrir. Það er líka annað sem er mjög mikilvægt og það er samvinnan sem hér hefur verið talað um. Þá er það að sjálfsögðu hin norræna samvinna og samvinna við Eystrasaltsríkin, eins og kemur fram í greinargerðinni. Við værum þá komin með sambærilegt rannsóknasetur og annars staðar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum og gætum tekið þátt í samstarfi þar.

Ég var að skoða heimasíðu Alþjóðastofnunar og fann hana því miður bara á ensku. Þar er, eins og hér hefur komið fram, setur um friðarrannsóknir sem er tengt við Höfða og svo er þar miðstöð smáþjóða og líka varðandi heimskautasvæðin. Ég tel að Ísland hafi mjög mikið fram að færa sem smáþjóð. Við getum kallað okkur smáþjóð — á erlendu máli er þetta stundum kallað „microstate“ — við erum það fámenn. En við eigum að miðla velgengni okkar, bæði sem samfélags og líka á alþjóðavettvangi, til annarra þjóða, smáþjóða og þá ekki síst eyþjóða. Ég hef oft verið að velta því fyrir mér af hverju við erum t.d. ekki með meira samstarf við eyjar í Kyrrahafi, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á öðrum stöðum og við aðrar alþjóðastofnanir sem hafa við svipuð vandamál að stríða sem lúta að stærðinni. Það er ekki nokkur vafi á því að Ísland hefur mjög mikið fram að færa þar. Hvað varðar öryggis- og varnarmál þá höfum við verið mjög farsæl því að við erum stofnaðilar að NATO og á því byggjum við öryggis- og varnarmál okkar. Við höfum verið mjög farsæl hvað það varðar og ég tel að við höfum miklu að miðla í þeim efnum. Við höfum t.d. átt sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og ég hef lesið greinar í New York Times og fleiri stórblöðum þar sem er sagt, með leyfi forseta, að við séum, svo að ég noti enskuslettuna, „punching above our weight“, að við séum að slá langt upp fyrir okkar stærð. Það getum við gert í krafti smæðarinnar. Við getum verið með beinskeyttari orðræðu og komið miklu betur að kjarna málsins af því að við erum ekki háð hagsmunum eins og stórþjóðirnar þurfa oft að líta til.

Það var komið inn á þetta áðan, það er allt að breytast núna, það er stríð í Evrópu. Það þýðir að öryggis- og varnarmál eru enn mikilvægari og við erum líka í breyttum heimi. Eins og kom fram hér áðan eru öryggis- og varnarmál m.a.s. farin að ná út í geim. Það hefur komið fram varðandi stríðið í Úkraínu að þar er Starlink notað í samskiptum og staðsetningum og þar er t.d. farið að ræða það að farið verði að skjóta niður gervitungl og annað slíkt.

Varðandi öryggismálin þá tengist það líka því að við erum nettengd með ljósleiðurum og það er gríðarlega mikilvægt að við förum að skoða þessi mál út frá tæknilegu sjónarmiði. Þetta er því mjög breitt svið sem er hér undir, ekki bara hin hefðbundna aðild að NATO, sem er vissulega líka að vinna að öryggismálum hvað varðar tengingar Íslands við umheiminn í gegnum sæstrengi. Það má minnast á að loftslagsógnin er líka þar inni, náttúruhamfarir sem þar eiga undir.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt skref að stofna þessa stofnun og að hún sé rétt komin hjá Háskóla Íslands, Alþjóðastofnun Háskóla Íslands, en tel jafnvel að stjórnsýslan ætti að eiga enn meira erindi inn í slíka stofnun. Þá þyrfti kannski annan samning við Alþjóðastofnun varðandi það að stjórnsýslan gæti komið meira að málum þar, þekkingin þar yrði meira nýtt. Ég vísa til þess sem stendur í greinargerð um nefnd þingflokka sem skipuð var í janúar 2012 um mótun öryggisstefnu. Í tillögum nefndar um þjóðaröryggisstefnu segir m.a., með leyfi forseta:

„Telur nefndin ekki forsendur fyrir því að setja á fót slíkt setur við núverandi aðstæður, einkum af fjárhagsástæðum. Verður því fyrsta kastið að byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem fyrir er. Þar er nærtækast að horfa til háskóla- og fræðasamfélagsins. Þegar aðstæður leyfa og fjármunir eru fyrir hendi telur nefndin rétt að skoða á ný stofnun slíks sérfræðiseturs.“

Þetta var árið 2014, nokkrum árum eftir hrun — reyndar sex árum eftir hrun, sem er töluvert langur tími, en nú er árið 2022 og hrunið er okkur enn í fersku minni, svo ótrúlegt sem það er eru 14 ár síðan það varð — en ég tel komið að þeim tímapunkti sem fjallað er um af þessari nefnd. (Forseti hringir.) Ég tel og vona að þessi ályktun fái góðan framgang í utanríkismálanefnd og það verði af gerð þessa samnings um sjálfstætt rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.