Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Með svona stofnanir þá finnst mér líka skipta máli hvar rætur þeirra liggja. Öryggis- og varnarmálastofnanir í nágrannalöndunum eru oft sprottnar upp úr einhverjum varnarmálaskólum, einhverjum hernaðarskólum þeirra landa. Það eru lönd sem eru með starfandi her og eru með allt annan kúltúr varðandi þessi mál heldur en herlausa litla Ísland. Þess vegna hefur mér alltaf þótt mjög góður bragur á því að Alþjóðamálastofnun sé með þessa breiðu nálgun og hafi náð utan um friðarmálin með þeim góða árangri sem við sjáum í Höfða friðarsetri. Það er eitthvað sem við ættum að vinna með. Það er ekki bara sérstaða Íslands heldur sóknarfæri til framtíðar í alþjóðamálum að leiða saman ólíka þætti frekar en endilega að vera með of þröngan fókus, vil ég segja. Þessar systurstofnanir þeirrar sem hér eru til umræðu í öðrum löndum eru sumar bara dálítið gengnar sér til húðar, þær eru að fjalla um öryggis- og varnarhugtakið út frá of þröngu sjónarhorni. Þetta er nálgun sem við þurfum ekkert endilega taka upp á sama tíma og hún er kannski að fjara út í öðrum löndum.

Miklu frekar held ég að við ættum, eins og mér heyrist nú hv. þingmaður vera opinn fyrir því að skoða, að sjá hvort Alþjóðamálastofnun sé kannski bara nú þegar að sinna þessum verkefnum og ef ekki að eiga þá eitthvert samtal við stofnunina um það hvernig hún sæi best fara á því að hún myndi sinna þeim og vinna þannig með þessa stofnun innan Háskóla Íslands sem er — hvað er hún gömul, 15, 20 ára? og búin vaxa ár frá ári og orðin nokkuð öflug þekkingar- og rannsóknastofnun. Mögulega getur hún orðið enn öflugri með þeim viðbótum sem hv. þingmaður er hér að mæla fyrir þó að ég haldi raunar (Forseti hringir.) að mikið af þessari vinnu sé unnin hjá stofnuninni nú þegar þó að ekki sé það undir formerkjum öryggis- og varnarmála heldur (Forseti hringir.) heiti það bara öðrum nöfnum.