Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mér varð nú svolítið hverft við þegar ég greip þetta skjal úr hillunni áðan til að búa mig undir að mæta í ræðustól og sá ekki nafnið mitt hérna. Ég gleymdi að láta hv. þingmann vita að ég vildi gerast meðflutningsmaður. Nú er það of seint en það færist hér með til bókar að sú var ætlun mín. En beiðnin barst akkúrat þegar verið var að skipta mér aftur inn á fyrir varamann sem hafði sæti hér fyrstu viku vetrar. Mér finnst mjög brýnt að þetta mál nái fram að ganga eins og mér finnst fáránlegt að þurfa að leggja það fram. Þessi þingsályktunartillaga segir ekkert annað en að ríkisstjórnin eigi að fara eftir tveimur þingsályktunartillögum, ekki bara einni, sem hafa verið samþykktar hér á Alþingi áður. Efndirnar eru ekki meiri en svo að það þarf að ýta á eftir verklausri ríkisstjórninni með tillögu um áður samþykkta hluti.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðu sinni um hvað þetta mál snýst. Þó að megintilefnið sé valfrjálsa bókunin við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögfesting samningsins í heild sinni eitthvað sem við þurfum líka að ræða. Ég fletti upp í skýrslu sem forsætisráðherra dreifði hér á þingi í gær, held ég, um framkvæmd ályktana frá Alþingi á árinu 2021. Þar er einmitt fjallað um þingsályktun 33/149, um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem fyrsti flutningsmaður var hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og með honum var hálft þingið á málinu. Öllum þótti okkur þetta hið sjálfsagðasta mál og mesta þjóðþrifamál. Í þeirri ályktun er ríkisstjórninni falið að koma með frumvarp eða hvort það var að koma þessu nógu snemma til þingsins þannig að þessu yrði lokið 13. desember 2020. 13. desember var valinn, ef ég man rétt, vegna þess að það er afmælisdagur samningsins. Þá var gengið frá honum hjá Sameinuðu þjóðunum á sínum tíma. Árið 2020 var fyrir tveim árum.

Hvað stendur í þessari skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana, um framkvæmd ályktana, þar sem vilji þingsins er skýr, þar sem ríkisstjórninni er falið að gera eitthvað? Það er bara vísað í einhverja heildarvinnu um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks, að gerð verði landsáætlun um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er gott og vel. Það er kannski ágætt að vinna að slíkri yfirgripsmikilli innleiðingu á þeim grundvelli en hvaða tímarammi er gefinn? Í fyrsta lagi er ekki gefinn tímarammi á framlagningu frumvarpsins, sem er það sem þingið samþykkti að ætti að gera, heldur er bara sagt að undirbúningur lagafrumvarps verði á ábyrgð verkefnisstjórnar og verði unninn samhliða þessari landsáætlun. Svo er hérna sá tímarammi að stefnt sé að því að leggja fram þingsályktunartillögu um landsáætlun á Alþingi haustið 2023. Það er eftir ár. Óttalega er biðin eftir réttlætinu löng, það verður nú að segjast.

En af hverju skiptir þetta máli? Þetta skiptir máli vegna þess að á meðan ekki er búið að búa almennilega um þessi mál, festa þau í lög, gera það að skyldu ríkisins að tryggja réttindi fatlaðs fólks og gera það að rétti fatlaðs fólks að sækja mál gegn ríkinu hjá alþjóðlegum úrskurðaraðila, geta stjórnvöld skákað í því skjóli og komist upp með ótrúlegustu hluti. Þá er t.d. ekki það úrræði fyrir fatlaðan mann, sem er brottvísað með hörðum aðferðum, að sækja rétt í sínu máli eftir þeirri leið, eða, svo að ég nefni bara dæmi af handahófi, fyrir samtök eins og Þroskahjálp að gera það fyrir hans hönd. Kæruleiðin er ekki fyrir hendi meðan ekki er búið að lögfesta valfrjálsu bókunina. Kannski er það ástæðan fyrir töfinni. Kannski er þetta ekkert óvart, kannski er það bara voða þægilegt fyrir stjórnvöld að geta kerfisbundið vanrækt skyldur sínar, jafnvel brotið á réttindum fatlaðs fólks meðvitað vitandi að afleiðingarnar eru bara oft býsna litlar. Það er dýrðin við þennan samning og valfrjálsu bókunina að það er bölvað vesen fyrir löndin sem lögfesta það. Þannig á það að vera vegna þess að lönd, ríki, ríkisstjórnir, um allan heim hafa um aldur og ævi komist upp með að jaðarsetja fatlað fólk og gera þátttöku þess í samfélaginu erfiða án þess að það hafi einhverjar beinar afleiðingar. Þessi samningur kemur í veg fyrir það. Það þýðir að stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða. Stjórnvöld þurfa að tryggja jafna stöðu fatlaðs fólks við allt annað fólk í samfélaginu, að búa svo um hnútana að fötlun einstaklings komi ekki í veg fyrir fulla samfélagsþátttöku viðkomandi. Þau þurfa líka að gæta þess sérstaklega að eiga samráð við fatlað fólk sem við sjáum nú oft misbresti á þegar frumvörp koma hingað til þingsins sem snerta þó þann hóp sérstaklega. Stjórnvöld þurfa að koma sérstaklega vel fram við þennan hóp í viðkvæmum aðstæðum eins og þegar fólk er á flótta. Þar eigum við þessi glænýju konkret dæmi um vanrækslusyndir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sömu ríkisstjórnar og samkvæmt samþykktri áætlun Alþingis átti að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020; sömu ríkisstjórnar og átti, eigi síðar en fyrir árslok 2017, að fullgilda valkvæða viðaukann, þetta ótrúlega mikilvæga verkfæri sem gerir fólki eða samtökum kleift að leita til nefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins til þess að fá úrskurð um það hvort á því hafi verið brotið.

Ég held, frú forseti, því miður að þær miklu tafir sem eru orðnar á því að ríkisstjórnin fari eftir skýrum og ítrekuðum vilja Alþingis séu engin tilviljun, að þetta séu jafnvel bara meðvitaðir tafaleikir. Þess vegna, akkúrat þess vegna, skiptir svo miklu máli að hv. þingmaður sýni hér þá þrautseigju að leggja þetta mál fram aftur og aftur til þess að minna stjórnvöld á, til að sýna að við munum ekki gleyma þessum samningi, munum ekki leyfa ríkisstjórninni að komast upp með það að vanrækja það sem er sjálfsögð skylda hennar til að bæta stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu.