154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

almennar sanngirnisbætur.

449. mál
[14:02]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um mjög áhugavert og mikilvægt mál að ræða. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur að þetta eru eins konar uppgjör við fortíðina. Við ætlum að gera upp háttsemi og misgjörðir af hálfu opinberra aðila og stofnana gagnvart einstaklingum í fortíðinni miðað við þá standarda og staðla á viðhorfum til mannréttinda og mannúðar sem við höfum í dag. Má þar nefna mál eins og Breiðavík, Laugaland, Varpholt, Kópavogshæli og Hjalteyri. Vissulega voru það brot á þeim tíma líka en samfélagið er sem betur fer orðið miklu betra og mildara.

Ég er sammála þessu frumvarpi. En það eru ákveðin atriði sem fá mig til að hugsa. Við erum með fyrirmynd í Noregi, sanngirnisbótanefnd sem er undir Stórþinginu. Við ætlum að setja á fót svipaða nefnd, sanngirnisbótanefnd, ekki undir Alþingi Íslendinga heldur sem stjórnsýslustofnun. Það er áhugavert sem kemur fram hérna á sjöttu blaðsíðu um fyrri leiðina og muninn á því þegar stofnun eða nefnd er stjórnsýslustofnun eða undir Alþingi. Maður sér það t.d. bara við veitingu ríkisborgararéttar að það eru meira huglæg sjónarmið sem ráða þegar Alþingi veitir ríkisborgararétt heldur en niðurnjörvaðir töluliðir í löggjöf. Þegar stofnun eins og sanngirnisbótanefnd er ekki undir þinginu þá eru huglægu sjónarmiðin ekki til staðar heldur er hún bundin af lagaákvæðum. Við sækjum fyrirmyndina til stofnunar sem er undir þingi en við ætlum að setja hana undir framkvæmdarvaldið. Það bindur sanngirnisbótanefnd sem stofnun, stjórnsýslustofnun, við lögin eingöngu. Það er rétt sem kemur fram í greinargerðinni að það sem mælir með því að hún færi undir undir Alþingi hefði verið tækifæri til að þróa umgjörðina og útfærsluna, jafnvel til lengri tíma, og stíga varlega til jarðar og halda væntingum borgaranna í skefjum o.s.frv. Það er líka sagt hvað mælir gegn slíkri leið. Það er að meiri líkur eru á að pólitísk sjónarmið hverju sinni ráði ferð við útfærsluna og jafnvel má spyrja hvort slík úrræði lifi af sviptingar í stjórnmálum líðandi stundar. Ég tel reyndar að ef svona nefnd væri undir Alþingi þá myndi hún ekki vera undirsett pólitískum sjónarmiðum heldur því sem væri rétt og sanngjarnt á hverjum tíma og væri ekki undir sviptingum stjórnmálanna komin. Það hefur sýnt sig í Noregi, það hefur ekki verið þannig frá 1953. Ég held að Alþingi Íslendinga hefði alveg verið treystandi til að hafa svona nefnd undir sér og þá með þeim sveigjanleika sem því fylgir og líka frumkvæði og sjálfstrausti til að taka ákvörðun sem er ekki bundin eingöngu við skýran lagatexta. Það er mikilvægt að hin nýja sanngirnisbótanefnd, þegar og ef frumvarpið verður að lögum, hafi þetta í huga og horfi þá til fyrirmyndarinnar í Noregi og hvernig framkvæmdin þar hefur verið.

Það er atriði í frumvarpinu sem mér finnst mjög áhugavert og ég er ekki alveg búinn að mynda mér skoðun á, það er í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins, um gildissviðið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Einstaklingar eiga ekki rétt til sanngirnisbóta nema þeir hafi áður tæmt önnur réttarúrræði, þar á meðal fyrir dómstólum, sem skapað geti rétt til bóta vegna háttsemi opinberra aðila eða einkaaðila skv. 1. gr.“

Það getur verið ómöguleiki fyrir einstaklinginn að fara fyrir dómstóla, hann veit að krafan er fyrnd og annað slíkt, en það er spurning hvort þetta orðalag leyfi einstaklingum að fara fyrir nefndina án þess að hafa tæmt réttarúrræði vegna þess að það er einfaldlega ómögulegt og þeir þurfi kannski ekki að vera fá frávísun eða þá að dómstóll kveði úr um að krafa sér fyrnd. Það er líka mikilvægt að viðkomandi hafi góðan aðgang að nefndinni. Það er svolítið erfitt, finnst mér, að fara til nefndarinnar eftir að dómstólar hafa hafnað. Og kannski líka að það getur verið stofnun sem hefur kannski staðið sig með prýði en ákveðin háttsemi gagnvart þessum einstaklingi hafi leitt til þess að hann hafi orðið fyrir varanlegum skaða — það er erfitt að sjá þetta svona „kollektíft“. Ég hef alltaf litið á svona nefnd, eins og ég skil að þessi stofnun sé í Noregi, þannig að það sé stofnunin sjálf sem er að bregðast við heildstætt, ekki eingöngu gagnvart ákveðnum vistmanni eða einstaklingi sem var á stofnuninni. En það á sjálfsagt eftir að koma í ljós þegar framkvæmd er komin á þetta, þegar mál fara að koma fyrir nefndina, hvort hún geti tekið einstök mál hjá stofnunum sem hafa staðið sig með prýði á sínum tíma en einstaklingar hafa orðið fyrir varanlegum skaða.

Það eru heimildir í frumvarpinu sem eru fyrir hendi, eins og segir í 6. gr., um málsmeðferð og tillögugerð matsnefndar sanngirnisbóta heitir ákvæðið, þar segir í 3. mgr., með leyfi forseta:

„Matsnefnd sanngirnisbóta skal hafa frjálsan og óheftan aðgang að öllum gögnum í vörslu ríkisins, sveitarfélaga og einkaaðila sem að gagni koma við mat á því hvort og þá í hvaða mæli umsækjendur hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi vegna háttsemi opinberra aðila og einkaaðila skv. 1. gr.“

Jú, vissulega, hún hefur aðgang að gögnunum en segjum að sveitarfélag vilji ekki afhenda þau. Þarf þá nefndin að fara fyrir dóm og fá úrskurð um það að fá afhent gögnin, bara eins og í sakamáli jafnvel? Það er spurning hvort þetta séu nægilegar rannsóknarheimildir og hvort nefndin þurfi að fara að kafa mjög djúpt ofan í rannsókn á máli hjá stofnun almennt, þ.e. í einstöku tilviki. Ég hélt sjálfur að þetta væri á grundvelli almennra rannsóknarnefnda gagnvart stofnunum eins og t.d. málið sem ég er meðflutningsmaður á varðandi Kleppjárnsreyki í Borgarfirði. Það hefur verið flutt núna tvisvar alla vega, ef ég man rétt, um að það fari fram rannsókn á starfseminni þar. Það var mjög sérstök stofnun þar sem kvenfólk í síðari heimsstyrjöldinni var sent þangað upp eftir á mjög vafasömum forsendum og meðferðin var fyrir neðan allar hellur, svo að vægt sé til orða tekið. Það sé mikilvægt að gera upp það tímabil og rannsaka það og þá gæti kvenfólk sem var þar farið til sanngirnisbótanefndar á grundvelli þeirrar rannsóknar, en matsnefnd sanngirnisbóta fari ekki núna að rannsaka ástandið á Kleppjárnsreykjum. Það er mikilvægt að það verði gert með sérstakri nefnd. Það mætti jafnvel vera ákvæði í lögunum um að matsnefnd sanngirnisbóta leggi það til jafnvel í tillögugerð sinni að ákveðnar stofnanir verði rannsakaðar heildstætt. Það mætti líka vera, ef maður hugsar út í breytingartillögur sem gætu bætt 6. gr.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og það er áhugavert fyrir alla sem hafa skoðað söguna að við séum að reyna að bæta fólki sem hefur orðið fyrir varanlegum skaða hjá stofnunum ríkisins á tímabilum þegar voru allt önnur viðmið og allt annar mannúðarstandard í gangi og það er mikilvægt að úrræðin séu skjót og einföld og líka að fólki finnist að það sé verið að taka utan um það og að það fái leiðréttingu sinna mála með þeim hætti sem mögulegt er af hálfu ríkisins. Þetta er oft fólk sem er komið á háan aldur, alla vega miðað við þessi mál sem ég þekki hér og er minnst á hér, Breiðavíkurmálið og fleiri mál. Þetta eru gömul mál og Kleppjárnsreykir, það er mál sem er 75 ára gamalt. Ég held að flestar eða mikill hluti þeirra sem voru þar séu komnar jafnvel á tíræðisaldur þannig að úrlausnin þarf að vera skjót til að gera upp þessi mál.

Ég á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og ég vonast til að málsmeðferðin þar verði fagleg og góð og við getum vonandi skoðað ákveðna þætti varðandi þetta frumvarp sem verða kannski til bóta í nefndaráliti frá okkur og breytingartillögum. En þetta er góður grunnur og gott að horfa til Noregs hvað þetta varðar en með þeim fyrirvara að við erum að gera þetta með öðrum hætti sem gæti bundið hendur stofnunarinnar sem er með öðrum hætti í Noregi, í norska Stórþinginu. Ég tel það vera kannski of mikið að við séum að skoða nákvæmlega hvort þetta eigi að fara undir þingið eða ekki, það myndi krefjast mjög mikilla breytinga á frumvarpinu og væri raunverulega grundvallarbreyting varðandi afstöðu til sanngirnisbóta.