154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

útlendingar.

60. mál
[14:48]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir framsöguna á þessu máli. Ég tek undir það sem sagt var að það er auðvitað mjög gott að það skapist góð umræða um kærunefnd útlendingamála þá í framhaldinu í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem hægt er að varpa fram alls konar sjónarmiðum og fræðast þá betur um. En mér finnst þessi tillaga vera vanhugsuð. Mér finnast flutningsmenn í raun og veru vera sjálfir sekir um það sem þeir eru þó að gagnrýna í greinargerðinni, þ.e. að þeir eru ósáttir við einstaka niðurstöður kærunefndarinnar og vilja meina að svo virðist sem ákveðnir nefndarmenn í kærunefndinni séu þá ekki að fara að lögum. Þá má alveg snúa þessu við og líta svo á að frumvarpinu sé einmitt beitt í pólitískum tilgangi vegna þess að stjórnmálamönnum líkar ekki niðurstöður kærunefndarinnar. Og ef mönnum líkar ekki niðurstaða kærunefndarinnar þá hljóta menn að vera svolítið skeptískir gagnvart þeim úrskurði sem sneri við fyrri úrskurði kærunefndarinnar og kom einmitt í veg fyrir að fólk frá Venesúela fengi áfram þessa viðbótarvernd.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann í fyrri atrennu, af því að það var svolítið talað um kostnað, að það væri mikill kostnaður sem gæti verið afleiddur af niðurstöðum kærunefndar — mér finnst það svolítið liggja í hlutarins eðli að stundum geti það verið þannig. Það er t.d. þannig að þegar dómstólar dæma eiga þeir að horfa á lögin en ekki það hvort dómsniðurstaðan sé dýr eða ekki. Það held ég að liggi í hlutarins eðli. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það sama eigi ekki að gilda um kærunefndina og dómstóla, þ.e. að fjárhagslegar afleiðingar af einhverri tiltekinni niðurstöðu geti á einhverjum tímapunkti gengið framar því sem sagt er í lögunum sem úrskurðurinn er byggður á.