133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

Norðfjarðargöng.

124. mál
[14:25]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þann stuðning sem birtist nú í ræðum þeirra við samgönguráðherrann og þau nauðsynlegu áform og framkvæmdir sem eru tengdar samgöngumannvirkjum. Það er yfirleitt þannig að áhuginn á samgöngubótum skín út úr andliti hvers einasta þingmanns.

En nefnt var sérstaklega að hafa þyrfti lengri samgönguáætlanir í gangi, í allt að 40 ár. Ég er ansi hræddur um að það yrði skrýtinn svipur á einstaka þingmanni ef uppáhaldsframkvæmdarverki hans yrði valinn staður á fertugasta ári héðan í frá. Það er erfitt að horfa svona langt fram í tímann. En engu að síður er það svo að lögin sem við höfum samþykkt gera ráð fyrir að samgönguáætlun/framkvæmdaáætlun sé gerð til fjögurra ára en hin svokallaða langtímaáætlun til 12 ára.

Síðan er til viðbótar af hálfu Vegagerðarinnar stöðugt verið að velta fyrir sér lengri framtíð. Hvar þarf að byggja upp samgöngumannvirki og hvar þarf að bæta við? Hvenær þarf að breikka? Þetta er einmitt hlutverk skipulagsyfirvalda að mínu mati. Þess vegna er mat á umhverfisáhrifum m.a. sett í löggjöf, reynt að horfa til framtíðar og átta sig á því.

Við sjáum t.d. hvað er að gerast á höfuðborgarsvæðinu þar sem verið er að breikka afkastamiklar eða stórar umferðaræðar. Þar rekst þetta strax á byggð vegna þess að við höfum ekki horft nógu langt fram í tímann. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf að gera það. Ég tek undir það að við þurfum að horfa langt fram í tímann þegar við erum að leggja á ráðin um framkvæmdir í samgöngumálum.