133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

öndunarvélaþjónusta við MND-sjúklinga.

109. mál
[18:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar jákvæðu undirtektir. Með því að spyrja hreyfa menn við málum en þeir tveir sem eiga kannski mestan hlut hér að máli, miðað við það hvað við erum komin langt í undirbúningi þess, eru Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, og Evald Krog sem hefur komið hingað í heimsóknir til okkar. Þeir hafa rætt þessi mál við okkur, verið miklir baráttumenn og þess vegna erum við komin svona langt með undirbúninginn.

Ég vil draga hérna sérstaklega fram að í samantekt Landspítalans sem hefur skoðað tölur fyrir okkur í þessu sambandi kemur fram að segja má að þegar séu tveir Íslendingar í öndunarvélameðferð. Þeir eru báðir á stofnun. Við undirbúning öndunarvélameðferðar í heimahúsum á Íslandi mætti gera ráð fyrir því að skjólstæðingarnir væru 3–4 í lok fyrsta ársins og að eftir þrjú ár væru skjólstæðingarnir orðnir 5–7. Þetta eru þær tölur sem við sjáum nú þegar að gæti verið hópurinn sem þyrfti á svona þjónustu að halda.

Kostnaðarþátturinn er auðvitað atriði sem við þurfum að fara í gegnum. Það er alveg ljóst að erlendis þjónusta aðallega ófaglærðir aðilar þennan hóp vegna vélanna og það er eitthvað sem hæstv. félagsmálaráðherra er að skoða. Að sjálfsögðu skoðum við það sem undir okkur heyrir, þ.e. heilbrigðisþáttinn og þá erum við aðallega að tala um að þjálfa fólk upp gagnvart því að nota vélarnar og svo auðvitað að sinna hefðbundinni heimahjúkrun eftir því sem þarf. Ég tel þetta mál komið á góðan rekspöl og tel sjálf eðlilegt að við hefjum þessa þjónustu.