133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fæðingarorlof.

323. mál
[18:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björn Ingi Hrafnsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra kærlega fyrir svörin og lýsi yfir sérstakri ánægju með þær jákvæðu undirtektir sem hann sýnir fyrirspurninni. Ég þakka sömuleiðis þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls. Greinilegt er að heilmikill samhljómur er í því að næsta eðlilega skref þegar kemur að fæðingarorlofinu sé að lengja það upp í 12 mánuði. Ég tek að sjálfsögðu undir með hæstv. ráðherra að skoða verður mörg önnur brýn velferðarmál í þessu samhengi, en þegar við horfum til þeirrar þjóðfélagsþróunar sem hefur orðið síðan lögin tóku gildi hefur aldursbilið á leikskólum verið að lækka og verður á næstu árum lækkað úr 18 mánuðum niður í 12 mánuði og þá er ósköp eðlilegt að bilið sé brúað að þessu leytinu til líka, fari úr 9 mánuðum í 12 mánuði.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að útgjöldin hafa reynst meiri, eins og ég vék að, vegna þess að einkum feður hafa nýtt sér þetta kerfi miklu meira en gert var ráð fyrir og það er jákvætt. Þar með hafa lögin náð tilgangi sínum. Ég hvet hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn til að halda áfram með málið á sinni braut. Ég tek undir þau sjónarmið að þetta sé eitt glæsilegasta velferðarmálið sem samþykkt hefur verið á vettvangi þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og samstarfi þeirra tveggja flokka og þess vegna er eðlilegt framhald að fæðingarorlofið lengist upp í 12 mánuði. Miðað við þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað um málið, bæði af hálfu þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni og af svörum hæstv. ráðherra, er ekki annars að vænta en að þau áform verði kynnt innan tíðar.