135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:06]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni fjárlaganefndar fyrir greinargóða yfirferð í upphafi þessarar umræðu. Hann rakti fjáraukalagagerðina mjög vel og ég sé því ekki ástæðu til að fara mjög djúpt í einstaka liði.

Mikið hefur verið rætt um stöðu ýmissa stofnana og hefur mönnum orðið tíðrætt um hallann á LSH. Það er vissulega rétt að halli stofnunarinnar hefur verið viðvarandi síðustu ár og það lítur út fyrir að í LSH sé eitthvert innbyggt hallamódel. Þótt hér sé lagður grunnur að því að skera niður þann hala þá er það ekki í fyrsta sinn sem það hefur verið gert. Það hefur hingað til ekki dugað jafnvel þótt aukið væri við í fjárlögum ársins þar á eftir. Það á reyndar við margar fleiri stofnanir. Það er eins og í þeim sé innbyggt hallamódel, ekki síst heilbrigðisstofnunum og þessar prósentur, 3–4%, virðast í heilbrigðis- og félagsmálastofnunum víða um land.

Þá er spurning hvaða aðferðafræði menn nota þegar svona halli kemur upp. Við höfum séð að í stofnunum hefur sú aðferðafræði víða verið notuð, sem mér hugnast nokkuð vel, sem lýtur að því að stofnanir þurfi að sýna fram á að þær hafi náð tökum á fjármálum sínum áður en skuldahalinn er skorinn af. Ég nefni í þessu sambandi Háskólann á Akureyri sem hefur átt við viðvarandi halla að stríða en þar var stofnuninni gert að taka á málunum og sýna fram á að hægt væri að reka stofnunina innan fjárlaga. Það þýddi að þeir fóru í mikinn uppskurð á stofnuninni og hafa náð miklu betri tökum á rekstrinum og þess vegna er kannski eðlilegt að horfa til þess að þeir fari að njóta þess. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi hafa stofnanir hins vegar víða verið skornar niður úr snörunni án þess að þurfa að fara í gegnum slíkt ferli.

Kannski er einnig vert að undirstrika, en það hefur komið fram hjá einstökum þingmönnum að það sé nánast eitur í beinum þeirra að ráðherrar fari fram á að forstöðumenn stofnana haldi sig innan ramma fjárlaga, að það er auðvitað lögbundin skylda þessara forstöðumanna. Spurningin er: Hvar á að draga mörkin? Á einhver ein tegund stofnana að fá að fara fram úr en önnur ekki? Hvers eðlis eiga þá slíkar stofnanir að vera? Það er ljóst að það er miserfitt að láta stofnanir halda sig innan fjárlaga að því leyti að eðli þeirra er mjög ólíkt. Auðvitað er alltaf viðkvæmara að skera niður þjónustu í heilbrigðisstofnunum og félagsmálastofnunum en öðrum stofnunum þar sem það að halda sig innan ramma fjárlaga kemur ekki niður með jafnafgerandi hætti.

Það er líka vert að geta þess að þrátt fyrir að hallinn á LSH sé mikill í krónum talið þá er hann síst meiri en en hjá ýmsum öðrum svipuðum stofnunum. Því vegna ber að skoða hlutina í því samhengi en ekki eingöngu að horfa til krónutölunnar.

Ýmsar stofnanir fá frekari leiðréttingar en á því er tekið sérstaklega í frumvarpinu og eins og áður segir kom formaður inn á það í framsögu sinni. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að koma inn á að fyrir utan fyrrnefndar stofnanir eru mjög margir skólar sem virðast eiga erfitt með að halda sig innan fjárlaga og hafa margir komið að máli við fjárlaganefnd og vakið athygli á því að hið svokallaða kostnaðarmódel skólanna sé ekki nógu gott og taki ekki á ýmsum þáttum sem eru ólíkir milli skóla.

Almennt má segja að þegar farið er í fjáraukalagagerð þá muni ansi miklu að hafa borð fyrir báru eins og vissulega er hér í ljósi þeirrar niðurstöðu sem þetta ár skilar í rekstri ríkisins. Það er allt annað og auðveldara verk þegar staðan er sú að ríkið skilar miklum afgangi en þegar afgangurinn er neikvæður. Það er líka erfitt að hafa svo mikinn afgang, ef svo má segja. Þá finnst öllum svo sjálfsagt og lítið mál að bæta upp á þeim sviðum þar sem keyrt hefur verið fram úr fjárveitingum. Um það hafa fallið mörg orð í umræðunni að við höfum svigrúm og því sé þetta ekkert mál. Það eigi bara að skera halana af láta stofnanir fara á núlli inn í næsta ár. En auðvitað er það ekki svo einfalt.

Á sama tíma hafa aðilar talað um lausatök í áætlunargerð. Ef maður lítur yfir það þá er mesti mismunur á milli þess sem er áætlað er og þess sem raunin er sú að tekjurnar hafa komið að stórum hluta til með þeim hætti, herra forseti, að fjármagnstekjuskatturinn skilar okkur meiri arði en menn reiknuðu með. En svo tala menn eins og það sé ekkert mál, hann verði bara svo mikill inn í framtíðina. En það eru hins vegar blikur á lofti varðandi það og við höfum séð að hlutabréfamarkaðurinn er ekki endilega þannig gerður að hægt sé að vera áskrifandi að peningum frá honum. Staðan í ár er t.d. allt önnur og miklu verri en hún var fyrir ári. Það er alveg skýrt í mínum huga að ef ekki verða miklar breytingar, og það er bara rúmur mánuður til stefnu fram að áramótum, þá sjáum við fram á miklu minni fjármagnstekjur á næsta ári en undanfarið. Þess vegna þýðir ekki, þótt við höfum nægt svigrúm núna, að við höfum nægt svigrúm á næsta ári þegar við förum í sömu vinnu. Þess vegna er nauðsynlegt að þeir aðilar sem fara fyrir stofnunum landsins geri sér grein fyrir því og haldi sig innan þess ramma sem settur er.

Mönnum hefur líka verið tíðrætt um stöðuna í efnahagsmálum. Vitnað hefur verið til þess að Standard & Poor's hafi gefið út nýja greiningu í dag þar sem horfum ríkissjóðs er breytt úr stöðugum í versnandi horfur. Án þess að ég ætli að deila við þá sérfræðinga þá sjáum við hins vegar að margt er að breytast í þá veru sem menn hafa talað um á hinu háa Alþingi að þeir vildu að gerðist varðandi efnahagskerfið, þ.e. að efnahagskerfið er að kólna. Öll teikn benda til þess að efnahagslífið og efnahagskerfið sé að kólna. Er það ekki það sem við vildum? Einmitt þegar það gerist þá koma þessir ágætu snillingar hjá Standard & Poor's með þessa niðurstöðu um versnandi horfur.

Við erum að kæla hagkerfið og það er að takast. Þess vegna var svolítið merkilegt að hlusta á forsvarsmann greiningardeildar eins stærsta bankans í fréttum í kvöld og heyra hann segja að hann hefði, eins og ýmsir aðrir sem töluðu þar, þar á meðal forsætisráðherra og fjármálaráðherra, undrandi á þessari niðurstöðu. Það er undarlegt í ljósi þess að nú sjá merki þess sem við vildum, þ.e. núna lítur út fyrir að við getum náð einhvers konar mjúkri lendingu í efnahagsmálum. Þegar við erum komin á þá braut þá virðast menn fara á taugum yfir og breyta horfum í versnandi. Þá er spurning: Hver er mælikvarðinn? Horfurnar eru versnandi að því leyti að margt bendir til þess að hér verði ekki þessi bullandi uppsveifla áfram eins og verið hefur og eftirspurn eftir vinnuafli muni að einhverju leyti dragast saman, að viðskiptahalli muni minnka o.s.frv. En það var einmitt markmiðið.

Ég segi ég að lokum, án þess að ég fari nokkuð meira í þetta, að auðvitað hefur verið gósentíð fyrir þá sem staðið hafa í fjárlagagerð að undanförnu. Það hefur verið mikill afgangur og nægt svigrúm við fjárlagagerðina. Það á reyndar fyrst og fremst við um ríkissjóð. Hins vegar er það rétt sem hefur komið fram í umræðunni að ýmis sveitarfélög hafa farið varhluta af góðærinu. Þá er ég fyrst og fremst að tala um lítil sveitarfélög úti á landi. Ég held að eins og komið hefur fram hjá ýmsum þurfi að horfa sérstaklega til þeirra erfiðleika sem þau eru í. Ég vorkenni hinum sveitarfélögunum, t.d. á Stór-Reykjavíkursvæðinu, alls ekki neitt. Þau hafa nægt svigrúm til að reka sín sveitarfélög á þeim forsendum sem þau hafa í dag. En smærri sveitarfélög úti á landi eiga í virkilega miklum erfiðleikum. Rétt eins og sum þeirra höfðu það gott fyrir einhverjum árum þá er staðan ekki jafngóð í dag hjá þeim. Hið sama getur auðvitað gerst með ríkissjóð. Það er ekkert víst að þetta verði endalaust dans á rósum. Þess vegna verða menn að gæta aðhalds. Það gengur ekki að við séum ár eftir ár með fjárauka af þeirri gerð sem við höfum hér í höndunum. Því munum við í fjárlaganefnd leggja mikið upp úr því á næsta ári að menn haldi sig innan ramma fjárlaga. Ég er reyndar ekki formaður nefndarinnar og tala ekki fyrir hana einn og sér en fjáraukalögin á ekki að nota með þeim hætti sem birtist í þessu frumvarpi. Ég held að menn verði að taka rekstur ríkisins miklu fastari tökum til að slíkt gerist ekki.