138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

þjónustusamningur við Ríkisútvarpið ohf.

136. mál
[14:44]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir þetta innlegg í umræðuna um Ríkisútvarpið sem er að mínu viti mjög mikilvæg stofnun. Hún á fyrst og fremst að sinna mjög víðtæku og öflugu fréttaþjónustuhlutverki um allt land, en þar hafa einkastöðvar látið undan síga á síðustu vikum og mánuðum, og jafnframt að sinna mjög öflugu menningarhlutverki er varðar leikið íslenskt sjónvarpsefni og heimildarmyndir svo eitthvað sé nefnt.

Ég vil samt hvetja ráðherra til að gera úttekt á samkeppnisstöðu einkarekinna miðla gagnvart ríkissjónvarpinu og -útvarpinu vegna þess að jafnaugljóslega og ég tel að Ríkisútvarpið eigi að vera við lýði á þessum markaði tel ég mjög brýnt að sá rekstur út af fyrir sig leggi ekki stein í götu annarra miðla. Þess vegna hvet ég ráðherra til að hafa ávallt í huga að Ríkisútvarpið er ekki eitt á þessum markaði.