138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kennsluflug.

107. mál
[15:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og mér er ljúft og skylt að svara þeirri spurningu sem er einföld:

„Er fyrirhugað að færa kennsluflug frá Reykjavíkurflugvelli?“

Áður en ég svara beint þá vitum við að ekki er langt síðan verið var að ræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem kom í framhaldi af umræðum um spurningu um samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Ég vil ítreka, virðulegi forseti, að mikil umræða er í gangi um Reykjavíkurflugvöll og hefur alltaf verið, skiptar skoðanir í öllum flokkum, öllum fjölskyldum og öllum vinahópum. Ég legg áherslu á að mikilvægt er að við virðum skoðanir hvert annars en reynum jafnframt að finna því farsæla lendingu hvar miðstöð innanlandsflugs á að vera.

Sem svar við spurningu hv. þingmanns um kennsluflugið eru engin áform um það á þessari stundu að flytja kennsluflug frá Reykjavíkurflugvelli að öðru leyti en því að koma æfingaflugi þ.e. snertilendingum, sem mest á aðra flugvelli. Ég legg mikla áherslu á það. Snertilendingar á flugvellinum hafa verið takmarkaðar nokkuð og aðeins heimilar á virkum dögum milli kl. 9 og 17 og kl. 11 til 16 á almennum frídögum yfir vetrarmánuðina. Flugbraut með bundnu slitlagi hefur verið komið upp í þessu skyni á Sandskeiði og eins er mikið um að Keflavíkurflugvöllur sé notaður í því skyni. Þá hefur verið unnið að uppbyggingu flugvallarins á Stóra-Kroppi og er góð aðstaða þar fyrir kennslu- og einkaflug.