141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir lokaorð hv. þingmanns að það er mjög mikilvægt að rugla ekki saman þeim heimildum sem ég er að tala fyrir annars vegar og leyniþjónustu hins vegar, forvirkum rannsóknum í þeim anda sem tíðkast sums staðar á Norðurlöndunum, til dæmis í Danmörku þar sem rekin er leyniþjónusta með mjög víðtækum heimildum fyrir lögreglu. Það er nokkuð sem ég er mjög andvígur. Ég tel mikilvægt að þegar við stígum skref eftir þessari hálu braut gerum við það í eins mikilli samstöðu og við mögulega getum.

Um það að ég telji að ráðin verði bót á öllum vanda með því að höfða til samvisku glæpamanna og samvisku samfélagsins, þá held ég að hún skipti reyndar mjög miklu máli. Samviska allra einstaklinga skiptir máli og eitt það mikilvægasta sem hægt er að gera til að forða okkur frá því að lenda í iðu glæpalífs er að koma í veg fyrir að ungt fólk ánetjist þessum hópum. Það skiptir mestu máli þegar upp er staðið. Ég minnist þess þegar dómsmálaráðherra Dana sagði á fundi sem við áttum dómsmálaráðherrar Norðurlandanna um þessi mál, en þeir hafa átt við glæpagengi að stríða árum og áratugum saman þrátt fyrir sína miklu þjónustu og leyniþjónustu, að það eina sem skipti verulegu máli væri þessi samfélagslega forvörn.

Það breytir því ekki að við þurfum að efla lögregluna og veita henni þær heimildir sem rúmast innan marka sem við getum orðið sammála um í viðureign við brotahópa, og það hefur verið gert. Við höfum veitt sérstakt fjármagn til slíkrar baráttu, 50 millj. kr. einvörðungu til að fást við þetta verkefni á tólf mánuðum og erum að lengja þann tíma.

Ég fullyrði að lögreglan hefur náð verulegum árangri í sínu góða starfi hvað þetta snertir. Þegar talað er um að lögreglan kalli eftir forvirkum rannsóknarheimildum skulu menn gæta sín á að tala ekki fyrir hönd allrar löggæslunnar í landinu og allra lögreglumanna. Ég hef heyrt mismunandi sjónarmið innan löggæslunnar. Ég hef heyrt þau. Ég man eftir varnaðarorðum forsvarsmanns greiningardeildar lögreglunnar hvað þetta snertir og ákalli hans til löggjafans um að fá skýrari reglur til að starfa samkvæmt. Það er verið að gera með þessu frumvarpi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að með þessum lagabreytingum er ekki verið að leggja til nein heljarstökk. Þetta mun ekki breyta mjög miklu í störfum lögreglunnar. En reglurnar verða skýrari, réttarheimildirnar verða skýrari og það snertir almannahag. Það er nokkuð sem vert er að horfa til.

Hv. þingmaður segir að þetta séu léttvægar breytingar. Ekki finnst réttarfarsnefnd það. Henni finnst ekki sérstaklega léttvægt að taka orðið „ellegar“ og skipta því fyrir orðið „og“. Til hvers vísar það? Í núverandi lögum er hægt að grípa til allra þeirra aðgerða sem hér hefur verið vísað til ef brotið sem verið er að rannsaka er svo alvarlegt að það geti krafist átta ára fangelsisvistar eða, ellegar — þarna kemur ellegar — ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir komi til. Með þessari breytingu er lagt til að þetta fari alltaf saman. Það verði ríkir einka- eða almannahagsmunir að vera til staðar og jafnframt þessi refsirammi, sem að sönnu er lækkaður, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, úr átta árum í sex ár. Það er til þess gert að taka til alvarlegustu efnahagsbrotanna svo dæmi sé tekið.

Síðan eru undantekningar á þessu sem horfa til barnaníðs, barnakláms og frelsissviptingar, svo sem nálgunarbann. Til að geta fylgst með því að sambýlismaður eða sambýliskona sem hefur verið fjarlægð af heimili sé ekki með hótanir í garð viðkomandi, þá er nálgunarbann heimilt án þess að refsiramminn sé sá sem kveðið er á um í þessum lögum.

Ég hvet til þess að nefndin fari rækilega yfir þetta og íhugi hvort við séum ekki að stíga gæfuspor. Ég ítreka að ekki er verið að kollvarpa neinum kerfum, alls ekki, en réttarheimildirnar verða allar miklu skýrari. Í greinargerð með frumvarpinu er að finna skýringartexta þar sem vitnað er í hæstaréttardóma og leitast við að veita dómurum leiðsögn um skilgreiningu á ríkum einka- og almannahagsmunum. Þannig að við erum að reyna að færa allt þetta umhverfi í fastmótaðra form.