141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kannast nú ekki við þessi orðaskipti um frumvörp sem þurfti að setja í ruslakörfuna eða smeygja undan, alls ekki. Það er rétt að frumvarp sem ég lagði fram á síðasta ári var gagnrýnt af hálfu ýmissa aðila innan lögreglunnar sem töldu það ekki ganga nógu langt. Ég taldi hins vegar að ég væri að styrkja grundvöll rannsókna á hendur skipulögðum brotasamtökum. Þar er komið inn á einn kjarnlægan þátt í máli hv. þingmanns. Hún nefnir að brot þurfi að hafa átt sér stað til að hægt sé að hefja rannsókn á því, en staðreyndin er sú að undirbúningur brots telst til brotsins sjálfs. Í því var fólgin gagnrýnin á frumvarpið sem ég setti fram. Menn töldu að ég væri ekki að breyta neinu með því frumvarpi vegna þess að undirbúningur brots væri hluti af brotinu. Ég var ekki á því máli en taldi mig vera að styrkja lögregluna í rannsóknarhlutverki sínu.

Það sem ég vil leggja áherslu á og hefur áður komið fram í máli mínu er að lögreglan á Íslandi nýtur mikils trausts. Hún nýtur mjög víðtæks traust í samfélaginu. Hlutverk okkar er að efla það traust á lögreglunni og þá þarf náttúrlega að vera innstæða fyrir því líka inn í framtíðina. Hana tryggjum við með því að hafa sem skýrastar reglur sem lögreglan starfar samkvæmt þegar komið er inn á svið eins og þetta sem snertir friðhelgi einkalífsins og allar þjóðir taka að sjálfsögðu mjög alvarlega. Ég var að vísa í mannréttindaumræðu þar sem varað er við því að opna (Forseti hringir.) á heimildir til lögreglu án skýrra skilgreininga. Ég á eflaust oft eftir í þessum sal, ef hitt þingmálið kemur upp aftur, að kalla eftir miklu meiri skýrleika en er að finna í því.