141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil árétta þann ásetning minn að gera allt sem í mínu valdi stendur til að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Þau frumvörp sem ég hef sett fram eru tilraun í þá átt. En allt á sín mörk. Ég hef viljað hlusta á þær raddir innan lögreglunnar sem kallað hafa eftir skýrara laga- og reglugerðarumhverfi. Þetta frumvarp sem ég er að mæla fyrir núna er tilraun til þess.

Ég vil einnig árétta það sem ég sagði hér fyrr, þegar verið var að vísa í umsagnir um fyrri frumvörp, að ég kannast ekki við orðalagið sem hv. þingmaður leyfir sér að nefna í umræðunni.

Ég vona að við getum náð saman um það sem við erum á annað borð sammála um. Um hitt eigum við eftir að taka umræðu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég mun ekki láta mig vanta í hana.