144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er lagt til í þessari tillögu að sú nefnd sem sett verður á laggirnar, sem er þverfagleg nefnd, skili af sér á fyrstu mánuðum næsta árs. Það er því ekki ætlaður mjög langur tími til að koma fram með hugmyndir og tillögur í þessu máli. Ég held að það sé brýnt að við förum af stað varðandi þessa skimun sem allra fyrst, ekki síst vegna þess að nú eru nokkur ár liðin frá því að hrunið varð. Eins og kom fram í ræðu minni áðan voru afleiðingarnar mjög slæmar í Finnlandi þar sem menn lentu í nákvæmlega því sama, þ.e. þeir gleymdu að huga að geðheilbrigðismálum barna og unglinga eftir kreppuna þar upp úr 1990 sem leiddi til þess að stórir hópar barna og unglinga duttu út úr skóla, flosnuðu upp af vinnumarkaði. Þetta er heil kynslóð, eins og ég sagði, sem er kölluð „týnda kynslóðin“ í Finnlandi. Heil kynslóð barna og unglinga sem þeir segja enn þann dag í dag að sé týnd. Þeir hafa ekki náð henni aftur inn á vinnumarkaðinn. Þegar fólk dettur út úr kerfinu einu sinni og vinnur ekki eða flosnar upp úr skóla er mikil hætta á því að viðkomandi einstaklingar fari ekki aftur á vinnumarkaðinn heldur festist í ákveðinni gildru. Það er þetta sem er svo mikilvægt, að við tökum á málinu strax, að þessi nefnd skili af sér sem allra fyrst og við getum byrjað að skima sem fyrst en sjáum ekki eftir heilu árgöngunum af börnum og unglingum sem verða út undan í samfélagi okkar á næstu árum.