145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég minntist á það í vikunni að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt að selja RÚV. Á dögunum var kynnt skýrsla um RÚV og eru skýrsluhöfundar góðvinir hæstv. menntamálaráðherra. Það eitt gerir trúverðugleika þessarar skýrslu ekki nægjanlegan, að mér finnst. Það er til dæmis ekki gott að trúnaðarupplýsingum um rekstur RÚV sé lekið í samkeppnismiðla, ég tel það ekki eðlilegt.

Þessi ríkisstjórn hefur látið kné fylgja kviði gagnvart RÚV frá því að hún tók við. Hún reif upp stjórnina og skipaði hana pólitískt á ný sem búið var að gera breytingar á í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það virðist vera markmið hennar að reyna að veikja þessa góðu stofnun, sem hefur fylgt okkur frá 1930, svo að það komi að því að menn geti sagt: Ja, þetta er orðin svo veik stofnun að það er bara best að við losum okkur við hana og látum almenna markaðinn sjá um þetta.

Allir hollvinir Ríkisútvarpsins þurfa að vera á verði. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa á dögunum og undanfarnar vikur kynnt mjög metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir landsmönnum. Þar er lögð áhersla á efni fyrir börn og ungmenni, á þjónustu við hinar dreifðu byggðir og það að vinna úr þeim menningarverðmætum sem stofnunin geymir, því að þetta er mikil menningarstofnun. Þessi framtíðarsýn hefur fengið góðar viðtökur almennings í landinu. Það er þess vegna óskiljanlegt að stjórnvöld ætli að reyna að brjóta á bak (Forseti hringir.) þessa góðu og miklu stofnun, RÚV, með þessum hætti. Ég segi bara: Menn mega skammast sín.


Efnisorð er vísa í ræðuna