146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:07]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mér þykir engin ástæða til að vernda æru stjórnmálamanna umfram aðra, hvorki innlendra né erlendra. Mér er í huga ákveðið mál úr mínu gamla heimalandi sem tengist þessu. Það var þannig að heimilislaus maður hrópaði ókvæðisorð að þáverandi forseta pólska lýðveldisins, orð sem ég ætla ekki að hafa eftir, hvorki í upprunalegri mynd né þýðingu þeirra af virðingu við þessa samkomu. En þau voru ekki falleg. Það mál var sótt af saksóknara landsins og fór fyrir dómstóla. Það voru alþjóðleg mannréttindasamtök sem tóku að sér að verja þennan borgara fyrir dómstólum. Vörnin byggðist á orðum sem ég mun ekki gleyma heldur hafa alltaf í heiðri þegar kemur að hörðum ummælum um mín eigin verk sem stjórnmálamanns. Helsinki-stofnunin, sú stofnun sem tók þessa vörn að sér, lýsti vörninni með þeim hætti að þarna væri borgarinn að tjá skoðun sína á embættisverkum forsetans með því orðalagi sem honum væri tamt.

Þessu verðum við sem gegnum opinberu valdi og förum með það að venjast. Oft tekur fólk sterkt til orða, með þeim hætti sem það myndi ekki taka til orða gagnvart fjölskyldumeðlimum eða vinum. En það er endilega ekki að beina sjónum sínum að okkar persónum. Það beinir sjónum sínum að embættisverkum okkar og því hvernig við förum með opinbert vald.

Ég sé enga ástæðu til að kjörnir fulltrúar — eða ókjörnir fulltrúar — í þessu ríki eða öðrum njóti einhverrar sérstakrar verndar í lögum í þessu samhengi og ég mun því styðja þetta mál.

Svo er spurning hversu aðkallandi þetta er. Það er alltaf ákveðið mat. En ég held að tvær ástæður séu fyrir því að það sé gott fyrir okkur að nýta tíma þessarar samkomu til að samþykkja þetta mál og ég ætla að nefna þær.

Í fyrsta lagi eigum við að haga löggjöf okkar í þessum sal eins og það fólk sem eftir okkur kæmi verði vont fólk. Ekki gott fólk heldur vont. Það er ákveðið hugarfar sem ég reyni stundum að tileinka mér. Auðvitað er þetta ákvæði ekkert mál ef allir sem munu stjórna Íslandi í nútíð og framtíð verði gott fólk sem sér í gegnum fingur sér með minni háttar orðalag og athugasemdir almennra borgara gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum. En ef hingað kemur fólk sem er verra, þá verður miklu þægilegra fyrir það fólk að hafa slíkt ákvæði í lögum fremur en að hafa það ekki.

Í öðru lagi er þetta mikilvægt, þ.e. að senda ákveðin skilaboð út í heim. Að þeir sem standa vörð um slíka löggjöf í öðrum löndum hafi einu fordæmi færra að vitna til. Að þeir sem lesi Wikipediugreinar um móðgun erlendra þjóðhöfðingja hafi einni línu færri að benda á þegar þeir rökstyðja mál sitt með þeim hætti að þetta sé alls ekki fordæmalaust í Kúveit, eða hvar sem það er, sem menn viðhalda slíkum lögum.

Sem betur fer eru önnur lönd að stíga svipuð skref. Það er ánægjulegt að Þýskaland sem nýlega lenti í ákveðnum vandræðum með þetta, svo vægt sé til orða tekið, í máli Jans Böhmermanns, hafi eftir því sem mér skilst fellt sambærilegt ákvæði úr gildi. Það væri ánægjulegt ef Ísland yrði næsta ríki sem fylgdi í kjölfarið. Ég styð þetta. Burt með þetta.