146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili lagði einn hv. þingmaðurinn til að stofnað yrði félag jákvæðra þingmanna. (BirgJ: Ég er ekki í því.) Ég er ekki viss um að það sé lýðræðinu til framdráttar að við séum alltaf jákvæð. Við þurfum að geta verið neikvæð gagnvart slæmum hlutum en alltaf á málefnalegan hátt.

Það sem þingmaðurinn er að ræða fær mig samt til að velta fyrir mér hvort félag skotþolinna þingmanna ætti frekar erindi, þingmenn sem þola að skotið sé á störf þeirra, sem þola að fjölmiðlar gagnrýni þá óvægið, sérstaklega þá sem eru í stjórnarliðinu, sérstaklega ráðherra, þá sem höndla með mest völd hér inni (VOV: Teflonfélagið.) Teflonfélagið, já, af því að það skiptir svo miklu máli að við séum ekki héðan að grafa undan fjölmiðlum, að við séum ekki að grafa undan tiltrúnni á opinbera umræðu með því, eins og þingmaðurinn segir, að tala um loftárásir þegar um er að ræða eðlilega umræðu. Eða eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti er að gera mjög reglulega núna, nú síðast með því að segjast ekki munu trúa skoðanakönnunum nema þær komi frá fjölmiðlum sem séu forsetanum þóknanlegir.

Þetta held ég að sé eitthvað sem við þurfum kannski ekkert endilega að stofna félag í kringum. Þetta er eitthvað sem við sýnum með athöfnum okkar. Ég, eins og þingmaðurinn, ætla að reyna, þetta er náttúrlega alltaf áskorun, maður þarf að venja sig við, menn þurfa að læra að brynja sig fyrir umræðunni. En auðvitað eigum við að geta það. Og auðvitað eigum við nýju þingmennirnir að gera hvað við getum til að koma umræðunni á þetta stig.